„Gulir [voru] straumar þínir, ó hland mitt í skálinni…“ – Úr Andrahaus

9. nóvember 2009 · Fært í Úr Andrahaus 

„Í skarðslöndum fyrir vestan er eya ein, sem Hólaey heitir. Norður úr henni geingur höfði einn, hálfklipinn frá eynni, og heitir hann Andrahaus. Hausinn er nokkuð víðlendur ofan og grasi vaxinn mjög, og það því fremur sem á honum hefur verið sú trú, að ekki mætti slá hann.“ Þjóðsögur Jóns Árnasonar I, bls. 481

Hefur þá ekkert breyst? Hefur ekkert lagast? Eru þeir menn enn til hér á landi sem finnst mikið til um að Ármann Þorvaldsson skuli hafa komist til þeirra mannvirðinga að fá að pissa í næstu skál við Hugh Grant? Og Rod Stewart?

Svo virðist vera. Á baksíðu Fréttablaðsins – þar sem forðum voru beittir og fyndnir dálkar eftir Gerði Kristnýju og Bergstein er nú kominn slúðurdálkur af því tagi þar sem plöggmeistarar geta hringt inn í hróðurfréttir um skjóstæðinga sína.

Í dag segir frá því að bók Ármanns Þorvaldssonar sem forðum hélt um peningakrana íslenskra auðmanna í Englandi veki athygli í Bretlandi og hann hafi verið „í föstudagsviðtali“ í Guardian þar sem hann segi frá því hversu lífið var ljúft á þeim árum þegar hann og félagar hans voru að setja Ísland á hausinn með þeim tilþrifum að nafn íslensku þjóðarinnar mun um ókomin ár verða órjúfanlega tengt við heimsku, mont, snobb, íburð, fyllerí, skuldseiglu og hvinnsku.

* * *

Sumir virðast hafa gaman af kampavínssögum Ármanns.  Í helgarblaði hins annars illvíga DV kom fram að þessi sagnalist Ármanns hefur komið honum  á lista yfir „skemmtilegustu rithöfunda þjóðarinnar“, sem má heita vel gert hjá manni sem skrifaði víst ekki einu sinni sjálfur bókina sína á íslensku. Á leiðinlega bekkinn er meðal annars skipað Einari Má Guðmundssyni og Hallgrími Helgasyni, sem sýnir hversu einkennileg könnun þetta hefur verið. Allra leiðinlegustu rithöfundarnir voru Davíð Oddsson og HHG sem einhvern veginn kemur ekki alveg á óvart í DV. Satt að segja kæmi manni ekki á óvart að þeir Davíð og Hannes Hólmsteinn yrðu í vor á lista DV yfir þau lið sem líklegust þættu til að falla í aðra deild á komandi íslandsmeistaramóti í knattspyrnu…

* * *

En sum sé: Í Fréttablaðinu í morgun, þann 9. nóvember, er  frásögn af velgengi Ármanns á erlendri grund – ein af þessum fréttum sem við virðumst aldrei ætla að losna við: að bók hafi komið eftir íslenskan mann í útlöndum. Og veki geysilega lukku. Viðkomandi sé meira að segja í viðtölum – í sjálfu„föstudagsviðtalinu“ í Guardian.

Sennilega er vísað hér til frásagnar sem birtist í fimmtudagsblaði Guardian: þar er eitt og annað haft eftir Ármanni – sögurnar af því þegar pissað var með frægum á velmektarárunum og aðrir viðlíka sigrar í lífinu streyma fram hjá hinum íslenska bankamanni en það sem hins vegar hefur alveg farið fram hjá blaðamanni Fréttablaðsins eru innskot frá hinum enska blaðamanni, sem ekki er alveg jafn uppnæmur yfir sögunum og íslenskir blaðamenn.

Ekki þarf lengi að lesa til að finna ískalt háðið og fyrirlitninguna á smáþjóðarplebbanum sem hélt hann væri eitthvað af því hann fékk að pissa í frægra manna skálum um stund. Gjálífissögurnar mæta þurrlegri undrun hjá blaðamanninum sem fljótlega er farinn að knýja hinn unga höfund til að játa að íslensku bankarnir hafi kannski verið heldur stórir miðað við bakhjarla sína og að yfirtökurnar hafi kannski verið heldur skuldsettar. Yfirleitt er dregin upp mynd af manni í algjörri afneitun í þessu velskrifaða viðtali.

Með allan hugann enn við liðnar pissukeppnir…

http://www.guardian.co.uk/business/2009/nov/05/author-icelandic-saga-armann-thorvaldsson

Guðmundur Andri Thorsson