Einum rétt – öðrum sett fyrir – Úr Andrahaus

5. nóvember 2009 · Fært í Úr Andrahaus 

„Í skarðslöndum fyrir vestan er eya ein, sem Hólaey heitir. Norður úr henni geingur höfði einn, hálfklipinn frá eynni, og heitir hann Andrahaus. Hausinn er nokkuð víðlendur ofan og grasi vaxinn mjög, og það því fremur sem á honum hefur verið sú trú, að ekki mætti slá hann.“ Þjóðsögur Jóns Árnasonar I, bls. 481

Vefútgáfa hægriarms Sjálfstæðisflokksins heitir amx.is og leggur að eigin sögn stund á „djúpar greiningar á málefnum líðandi stundar“ en hefur einkum barist fyrir endurupptöku kalda stríðsins á Íslandi hvar sem því verður við komið.

Í morgun fögnuðu amxarar  því ógurlega að Bjarni Bjarnason rithöfundur heldur því fram í Morgunblaðsgrein að Forlagið hafi ískyggilega einokunarstöðu á íslenskum bókamarkaði, og hefur einkum til marks um hana velgengni ýmissa höfunda sem koma út á þeim bænum, hvað varðar tilnefningar til verðlauna og góða dóma.

Amxarar hafa raunar sjálfir fengið nokkra innsýn í hvernig það er að eiga erfitt uppdráttar á bókamarkaði því Óli Björn Kárason, annar skráðra aðstandenda vefsins, reyndi um hríð fyrir sér  í bókaútgáfu hjá Almenna Bókafélaginu. En þá var því miður kalda stríðinu að mestu lokið.

Grein Bjarna virkar satt að segja á mig eins og hróp á athygli í byrjun vertíðar: hæ hó! Hér er ég! Sterk öfl vinna gegn mér! Fyrirfram getur hann sagt um allar hugsanlegar dauflegar undirtektir við bók sinni að þær séu runnar undan rifjum einokunarrisans. Viðtökur við bók hans eru komnar í tiltekið samhengi.

Af skrifum hans dregur lesandi þá ályktun að hver sá höfundur sem velgengni nýtur og kemur út undir merkjum Forlagsins eigi þá velgengni að þakka bolabrögðum og samsæri risans.

Og til að samsærið gangi upp þarf Bjarni að gera Halldór Guðmundsson að einhvers konar stjórnanda hjá Forlaginu, sem er rangt, gera leifarnar af bókmenntafélaginu Mál og menningu að meðeiganda Bókabúðar Máls og menningar sem er líka rangt  og dylgja um að Halldór Guðmundsson bregði fæti fyrir frama tiltekins höfundar í Þýskalandi – sem er örugglega rangt.

* * *

Ég deili ekki sýn Bjarna á íslenskan bókmenntavettvang. Þar eru vissulega klíkur og flokkar, áhrifamiklir einstaklingar og minnipokafólk, ómaklega gleymdir höfundar, frekjur, hávaðabelgir og mýsnar sem læðast. Þar er vissulega fámenni. Þar hafa sumir vissulega komið ár sinni sterkar fyrir borð en aðrir. Þar koma á hverju ári bækur sem fá ekki þá athygli sem þær ættu skilið. En þó er þetta ekki einhlítt. Því þar eru nefnilega lesendur: almennir lesendur, fólkið þarna úti sem sér í gegnum allt skrum og heldur þessu öllu gangandi með lestri sínum á háu plani. Höfundar koma og hverfa, rísa og hníga – tala til samtímans misjafnlega. Sumum auðnast að nema eitthvað í tíðinni hverju sinni og straumbreyta því í skáldskap sem talar beint til fólks. Aðrir reyna en stunda skáldskap sinn á öðru tíðnisviði en þorri viðtakenda hefur móttökuskilyrði fyrir. Þannig er það. Svo kannski allt í einu verður allt ljóst að bragði – kannski fyrir tilverknað snjalls túlkanda – og úr verður mikið ævintýri. Og svo kannski ekki.

Þetta gengur upp og ofan hjá okkur flestum. Við eigum okkar einverustundir og við eigum okkar stefnumót við lesendur sem við vitum raunar minnst um sjálf. Við fáumst við orð og hugsanir, tilfinningar, örlög, líf. Við fáumst við mannleg hjörtu  og það er ekki hægt að tala um iðju okkar í sömu andrá og skrúfur og prenthylki, seríóspakka og naglalökk, með fullri virðingu fyrir slíkum varningi. Og með fullri virðingu fyrir valdsviði samkeppnisstofnunar getur hún ekki hlutast til um það hverjum beri að ná að snerta mannleg hjörtu þessa vertíðina og hverjum ekki. Það er ekkert kvótakerfi í skáldskapnum.

Þegar vel tekst til náum við með orðum okkar inn í hugskot lesenda. Við hreyfum við hugsun þeirra og tilfinningum. Og það er af þeirri ástæðu sem pólitískusar hafa svona mikinn áhuga á skáldum og rithöfundum og vilja svo gjarnan fá þau í sinn flokk.

Ég deili ekki sýn Bjarna. Mér sárnar þegar bækur mínar eru hundsaðar af þessum sárafáu gagnrýnendum sem enn eru eftir en tel ekki að það sé vegna þess að mér hafi láðst að bera á þá fé; ég skil ekkert í því þegar bækur mínar eru ekki tilnefndar til verðlauna en ég lít ekki á það sem birtingarmynd þjóðfélagsmeins. Ég horfi á höfunda sem verðlaunum og viðurkenningum er hrúgað á meðan ég fæ aldrei neitt en ég ætla ekki  að kæra það til samkeppnisstofnunar eða tollstjórans í Reykjavík og hvað þá setja það í flokkspólitískt samhengi. Ég lít ekki einu sinni svo á að ég eigi nokkra kröfu á því að bækur mínar eigi hljómgrunn meðal lesenda eða sjálfskipaðra viðtökustjóra. Mér finnst hlutverk forleggjara míns að gefa þær fallega og sómasamlega út og láta einhvern veginn vita af þeim – og berja í bumbur þegar mér mun takast virkilega vel upp – en eftir það erum við – ég og útgefandinn – ofurseldir dyntum íslenska bókamarkaðarins. Þar ræður flókið samspil ótal þátta fremur en að setið sé á svikráðum við mig.

* * *

En ég ætlaði ekki að þrátta við Bjarna Bjarnason um það. Hinu tók ég eftir á amx: þegar Óli Björn (eða smáfugl hans sem Óli hefur sett fyrir að skrifa þetta) hefur vitnað með velþóknun í Morgunblaðsgrein Bjarna setur  hann skyndilega Einari Má Guðmundssyni fyrir að skrifa stíl um sama efni, rétt eins og Einar Már sé einhvers konar starfsmaður á plani.

Þetta hlýtur að vera blendin ánægju fyrir Bjarna. Eftir að vera hampað svona fyrst – leiddur til öndvegis í Morgunblaðinu og vitnað til hans í löngu máli – er allt í einu eins og hann sé kannski ekki alveg nógu góður og pöntuð grein eftir annan höfund sem talinn er mikilsverðari liðsmaður í hinni þrotlausu baráttu fyrir endurupptöku kalda stríðsins.

En það hlýtur þó að vera hátíð hjá hinu, að vera sett fyrir að skrifa stíl af Óla Birni Kárasyni…