Hvítfeld

Kristín Eríksdóttir. Hvítfeld – fjölskyldusaga.

JPV útgáfa, 2012.

Úr Tímariti Máls og menningar 4. hefti 2013

Jenna Hvítfeld er sögumaður í stærstum hluta þessarar bókar og talar í fyrstu persónu. Hjá henni fær lesandinn allar sínar upplýsingar um hana sjálfa og viðburðaríkt líf hennar og mikið af upplýsingum um aðrar persónur. Lesandinn heldur í fyrstu að hann geti treyst Jennu, vegna þess að hún viðurkennir fyrir honum að hún sé lygari, að hún ljúgi öllu að öllum. Þar með telur lesandinn að Jenna hafi hleypt sér á bak við tjöldin, hann sé trúnaðarvinur og geti treyst henni.

Smátt og smátt kemst hann þó að því að þetta er ekki á rökum reist. Jennu er ekki treystandi og lesandinn verður virkur þátttakandi í lygum hennar með því að verða einn af þeim sem hún speglar sig í. Álit lesandans skiptir Jennu máli, það myndast því eins konar gagnvirkni í lestrinum, því Jenna gerir lesandann að fórnarlambi lyga sinna, hún sýnir honum hvernig hún blekkir aðra og blekkir hann um leið. Og þetta eru forsendur þess lygavefs sem sýndur er verða til í þessari sérkennilegu og frábæru bók Kristínar Eiríksdóttur.

Mun sannleikurinn gera yður frjálsan?

Sannleikurinn er sagna bestur eða svo er okkur sagt frá blautu barnsbeini. Það er ljótt að ljúga og stranglega bannað í níunda boðorðinu. En þegar nánar er að gætt verður hins vegar ljóst að allir ljúga, allir blekkja. Það að vita hvenær á að ljúga, að hverjum og hversu miklu, er hluti þeirrar félagsfærni sem talin er mönnum nauðsynleg til fullrar þátttöku í samfélaginu. Skortur á þessari félagsfærni er meðal þess sem hamlar þeim sem greindir eru með Asberger-heilkenni, en þeir gera sér ekki grein fyrir því að „oft má satt kyrrt liggja“ (Attwood 2002, 3) sem er annað orðatiltæki sem við erum öll alin upp við og hirða fáir um þann tvískinnung sem felst í því að fara eftir níunda boðorðinu og lifa eftir þessu þagnarboði.

Þetta er áhugaverð mótsögn. Hvert barn veit að það má ekki ljúga, en eftir því sem það eldist og þroskast kemst það að því að maður verður að ljúga. Það er stöðubundið hvenær er ljótt að ljúga. Heimspekingurinn Nietzsche fjallar um þessa mótsögn í ritgerð sem nefnist Um sannleika og lygi í ósiðrænum skilningi, og birtist í íslenskri þýðingu í Skírni árið 1993. Þar ræðir hann friðarsáttmála mannanna sem gegnir þeim tilgangi að fólk geti komið sér saman um ákveðin gildi og þar með ákveðinn sannleika sem forðar því að allir séu í stríði við alla út af „sjálfsögðum hlutum“. Lygarinn er þá sá sem rýfur þennan friðarsáttmála með því að ljúga röngum hlutum á röngum tíma að röngu fólki (Nietzsche 1993, 17).

Í samfélaginu eru óskráðar og skráðar reglur sem langflestir fara eftir. Gott dæmi um slíka reglu er að „rautt ljós þýðir stopp“. Flestir virða þessa reglu, en það er þó auðvelt að brjóta hana ef ekkert kemur í veg fyrir að farið sé yfir á rauðu ljósi, nema vitneskjan um að það sé bannað. Afleiðingarnar geta líka orðið alvarlegar fyrir þann sem lendir í bílslysi af því að einhver annar brýtur þessa reglu. Hann hefur brugðist því trausti sem áður var sjálfsagt og viðkomandi getur átt erfitt með að treysta því að aðrir þátttakendur í umferðinni brjóti ekki reglurnar hvar sem er og hvenær sem er. Heimspekingurinn Althusser skýrir þetta með því að segja að flestir þegnar samfélagsins fari að þessum reglum sjálfir, nema vondu þegnarnir sem af og til brjóta gegn kerfinu og verða sér þannig úti um refsingu. (Althusser, 1971, 134). Þeir sem brjótast út úr mynstrinu eru „vondir þegnar“ samfélagsins og virka illa innan þess. Þetta getur bæði gerst þegar fólk lýgur of lítið (eins og í tilfelli Asberger-fólksins sem minnst var á hér að ofan) og eins þegar fólk fer yfir strikið í hina áttina, lýgur of mikið og rýfur þar með friðarsáttmála samfélagsins.

Í bókinni Hvítfeld – fjölskyldusaga eftir Kristínu Eiríksdóttur er þessi friðarsáttmáli samfélagsins meginþema. Hvaða lygar á að segja og hvenær? Af hverju lýgur fólk að sjálfu sér og öðrum? Lygar mæðgnanna Jennu og Huldu tengjast persónulegum ástarútópíum þeirra beggja. Lygar Jennu eru óásættanlegar samfélaginu, en flestar lygar Huldu falla inn í friðarsáttmála samfélagsins. Samt eru lygar Huldu ekki síður skaðlegar en Jennu. Í báðum tilfellum er um sviðsetningu að ræða. Hvað er það sem gerir Huldu að góðum þegni en Jennu að vondum?

Ef ekkert er til nema yfirborðið

Flestir þegnar samfélagsins sviðsetja sig á einhvern hátt. Dæmi um það er vefsíðan Facebook, þar sem venjuleg manneskja getur sviðsett líf sitt eins og henni hentar, sleppt því t.d. að minnast á leti sína og ómennsku en dregið fram dugnað sinn og mannkosti. Manneskjan setur fram líf sitt eins og henni finnst það ætti að vera. Kjarni útópíunnar, þráin eftir betra lífi (Viera, 2010, 7) býr nefnilega í flestum og eins löngunin til þess að láta aðra halda að líf þeirra sé í raun betra en það er. Þetta er í flestum tilfellum sárasaklaust og þessi gerð sviðsetningar er ásættanleg að mati samfélagsins.

Aðalpersóna bókarinnar Hvítfeld, Jenna Hvítfeld, gengur þó talsvert lengra en þetta. Það er hægt að halda því fram að hún kaffæri þrána eftir betra lífi og setji í hennar stað þrána eftir þessari sviðsetningu einni, glansmyndinni sem felst í áliti annarra á henni. Hún speglar sig í áliti annarra og sjálfsmynd hennar „hverfur“ þegar aðrir sjá í gegn um hana. Jenna rýfur friðarsáttmála samfélagsins í hvert einasta skipti sem hún opnar munninn. Lygar hennar snúa bæði að ytri aðstæðum hennar og innra sálarlífi.

Móðir Jennu, Hulda, er lygari af allt öðrum toga. Hún lýgur ekki til um staðreyndir, hún segist ekki hafa klárað nám sem hún ekki kláraði eða búa einhversstaðar þar sem hún ekki býr. Hún lýgur samt sem áður á hverjum degi. Hún lýgur að sjálfri sér, samfélaginu og börnunum sínum, lýgur því að það sé allt í lagi með hana, henni líði ekki illa, hjónaband hennar sé hamingjusamt … Hulda lifir í stöðugri vanlíðan. Æskuheimili hennar einkennist af upplausn, vanrækslu og drasli, móðir hennar, Dýrleif, er með söfnunaráráttu, enginn sinnir Huldu og hún verður fyrir kynferðislegri misnotkun sem barn. Hún er ekki ástfangin af manninum sínum, sem reynist svo vera eiturlyfjafíkill sem ekki getur haft stjórn á skapi sínu. Yfir allt þetta breiðir hún og þær lygar hennar eru annars eðlis en lygar Jennu. Þær brjóta ekki í bága við friðarsáttmála samfélagsins, snúast um tilfinningar en ekki staðreyndir og eru í raun og veru mjög þægilegar fyrir hina þegnana. Ef þeir vita ekkert um hvað er að gerast í lífi Huldu, ef þeir láta hana bara ljúga að sér, þurfa þeir ekki að hjálpa henni eða börnunum hennar, enginn þarf að baka sér óþægindi með annarra manna vandamálum. Þessar lygar eru því samfélagslega ásættanlegar, þetta er sviðsetning sem er friðþæging fyrir hina þegna samfélagsins, sem vilja bara halda áfram í sínum tannhjólaförum.

Þó lygar Huldu séu almennt ásættanlegar í samfélaginu, eru þær ekki síður skaðlegar en lygar Jennu. Hún hefur rangfeðrað yngri systurina Eufemíu og grunurinn um það eyðileggur bæði hjónabandið og Eufemíu. Hægt er að færa rök fyrir því að hið persónulega niðurbrot sem hlýst af lygunum sé í raun skaðlegra en flest annað, þar sem þær hafa talsverð áhrif á líf manns hennar, barna og systur. Það má segja að Hulda sé „svindlari» af þeirri gerð sem Langford og Clance fjalla um í grein sinni frá 1993, The Impostor Phenomenon: Recent research findings regarding dynamics, personality and family patterns and their implications for treatment. „Svindlari“ merkir þar fólk sem upplifir sig sem svindlara vegna lélegrar sjálfsmyndar sem ekki fellur að hugmyndum umhverfisins um það. Hulda trúir ekki á eigin árangur í skóla, eða sambönd við annað fólk og hún lætur misnotkun Atla, elskhuga síns og kennara, yfir sig ganga án þess að efast um að hún eigi það skilið. Hún er líka haldin þrifnaðaráráttu, sem er bæði viðbrögð við sóðaskap móðurinnar og liður í því að segja við samfélagið „það er allt í lagi með mig».

Sjálfsfyrirlitning Huldu kallast á við sjálfsupphafningu dótturinnar Jennu sem þráir að vera fullkomin. Smám saman hættir hún að hafa þörf fyrir raunverulega velgengni og lætur sér nægja að búa til glansmynd af lífi sínu, án þess að það sé innistæða fyrir henni. Henni fannst t.d. ekki nauðsynlegt að klára námið sem hún fór til Bandaríkjanna til að stunda, heldur lýgur hún því að sér gangi vel, að hún sé byrjuð aftur í skóla. Það er henni nefnilega mikilvægara að gefa af sér góða mynd á Íslandi, sem hún getur svo aftur speglað sig í, heldur en að reyna af alvöru að ná þeirri velgengni sem hún þráir.

Hulda þráir betra líf með hjálp ástarinnar. Allt hennar líf snýst um að fá þá rómantísku ást sem henni finnst hún þó ekki eiga skilið. Jenna þráir ekki ást á sama hátt. Sambönd hennar ganga ekki upp af því að hún vill í rauninni bara samskipti við hitt kynið/maka til þess að spegla þær hliðar sem hún vill sjá hjá sjálfri sér. Karlmaður í sambandi við hana yrði alltaf viðfang, hún er ekki fær um að elska einhvern sem persónu og vill það heldur ekki. Hún vill sviðsetninguna, glansmyndina og fullnægja hennar felst í því að sjá sjálfa sig endurspeglast í einhverjum öðrum, viðfanginu. Hennar persónulega ástarútópía felst því í að sjá sjálfa sig í öðrum. Flest sambönd byrja með því að fólk speglar sig hvort í öðru en þróast svo (vonandi) yfir í að fólk læri að meta hvort annað með kostum og göllum. Ást Jennu kemst aldrei yfir spegilstigið.

Lygar Jennu og Huldu koma í veg fyrir að þær geti tekið eðlilegan þátt í lífinu í kringum sig og þær skemma jafnframt út frá sér. Hvorug mæðgnanna er fær um að vera í gagnkvæmu ástarsambandi við aðra manneskju, því orka þeirra fer í að sviðsetja raunveruleikann í annarra augum. Jenna lýgur aðallega til um ytri aðstæður sínar og viðheldur mynstrinu með því að binda dóttur sína, Jackie, órjúfanlega inn í lygavef sinn. Hulda lýgur aftur á móti um sitt innra sálarlíf, hlutverkið sem hún leikur er „konan sem hefur það fínt“.

Bókin Hvítfeld sýnir á magnaðan hátt hversu lítill munurinn á „ásættanlegum“ og „óásættanlegum“ lygum er í raun og veru og hversu mikil áhrif báðar gerðir lyganna geta haft á sálarlíf fólksins sem upplifir þær. Báðar eru þessar persónur hluti af rannsókn Kristínar Eiríksdóttur á okkar narkissíska samfélagi sem hún sýnir okkur í verulega afhjúpandi ljósi.

Hildur Ýr Ísberg

 

Heimildir

Althusser, Louis. (1971). Ideology and Ideological State Apparatuses (Notes towards an investigation). Lenin and Philosophy and Other Essays. New York: Monthly Review Press.

Attwood, Tony. (2002). The Profile of Friendship Skills in Asperger’s Syndrome. Jenison Autism Journal, 14 (3).

Langford, Joe og Clance, Pauline R. (1993). The impostor phenomenon: Recent research findings regarding dynamics, personality and family patterns and their implications for treatment. Psychotherapy: Theory, Research, Practice, Training, 39 (3), 495–501.

Nietzsche, Friedrich. (1993). Um sannleika og lygi í ósiðrænum skilningi. Skírnir, 167 (vor), 15–29.

Viera, Fátíma. (2010). The concept of Utopia. Í Claeys, Gregory (ritstj.) The Cambridge Companion to Utopian Literature. Cambridge: Cambridge University Press.

Žižec, S. (1999). Courtly Love or Woman as Thing. Wright, Elizabeth og Wright Edmund (ritstj.)

The Žižec Reader. New York: Blackwell Publishers.