„Alls hins stolna aftur vér krefjumst“ – Úr Andrahaus

24. október 2009 · Fært í Úr Andrahaus 

„Í skarðslöndum fyrir vestan er eya ein, sem Hólaey heitir. Norður úr henni geingur höfði einn, hálfklipinn frá eynni, og heitir hann Andrahaus. Hausinn er nokkuð víðlendur ofan og grasi vaxinn mjög, og það því fremur sem á honum hefur verið sú trú, að ekki mætti slá hann.“Þjóðsögur Jóns Árnasonar I, bls. 481


Eftir Guðmund Andra Thorsson


Hannes Hólmsteinn Gissurarson hefur um árabil verið ötulasti talsmaður þess að byggja ranglátt þjóðfélag. Við súpum nú seyðið af því að til valda komust menn sem trúðu einmitt honum og auðræðishugsjón hans; þeirri kenningu að afnema ætti fjármálaeftirlit, reglugerðir, skatta (nema á venjulegt launafólk): hin ósýnilega hönd markaðarins myndi ævinlega stýra peningunum í réttar hendur; auðurinn hefði alltaf rétt fyrir sér, sjálfkrafa.

Í stað þess að stara í gaupnir sér vegna þess hvert þessi nauðhyggju-auðhyggja leiddi, og láta sálu sína þenkja um sína stóru villu skrifar Hannes baki brotnu. Hann beinir mjög sjónum austur á Volgubakka, þegar Stalín ríkti þar, en slíkt samfélag telur hann eina valkostinn við auðræðið sem þeir aðhyllast, hann og þessir fáu félagar sem enn eru staðfastir í trúnni.

Hann minnir ekki lítið á gömlu kommúnistana sem „biluðu ekki í Ungó“.

Kannski ekki skrýtið að hugurinn sé á Volgubökkum. Davíð Oddsson var einmitt nokkurs konar Boris Jelstín Íslands – undir hans forystu voru þjóðareignir gefnar mönnum sem fyrir vikið urðu ýmist fáránlega ríkir eða þóttust vera fáránlega ríkir.

Enginn sá muninn á því tvennu.


* * *


Hannes Hólmsteinn grípur gjarnan á lofti það sem hrýtur Davíð úr penna eða munni enda kemur fram í nýlegri grein Hannesar að hann lítur á það sem nokkurs konar karakterbrest að vera ósammála Davíð.

Nú síðast hendir Hannes á lofti ádeilugrein Davíðs í Nýja-Mogga um það að nokkrir ráðherrar stóðu á BSRB-þingi og sungu af innlifun og krafti sjálfan Nallann á meðan forseti Íslands stóð hjá svolítið ráðleysislegur að sjá.

Þeir félagar Hannes og Davíð beina sjónum – jú hvert? – á Volgubakka.

Þeir telja þennan söng sambærilegan við það að gamlir nasistar reki handlegg á loft og kyrji sína söngva og minna á að þessi söngur hafi verið þjóðsöngur Sovétríkjanna um hríð.

Svo maður vitni nú líka í Daðason:„Hvílík söguleg óheilindi!“

* * *


Internationalinn er frá 1870, eftir Frakkann Eugene Pottier en lagið er eftir Pierre Degeyter. Íslenski textinn sem oftast er fluttur er eftir Sveinbjörn Sigurjónsson kennara og þýðanda og höfund ýmissa kennslubóka, til að mynda um bragfræði.

Frá fyrstu tíð hefur þetta verið alþjóðasöngur Jafnaðarmanna og þótt kommúnistar í Sovétríkjunum hafi reynt að gera þennan söng að sínum – rétt eins og allar góðar hugsjónir um jöfnuð og frið og samvinnu – þá er það fráleitt að tengja hann því alræðisríki, enda lögðu kommúnistar þar þennan söng af sem þjóðsöng og tóku upp rússneskan þjóðrembubrag. Nalllinn lifði Sovétríkin rétt eins og allar hugsjónir um jafnrétti manna hafa gert.

Þennan söng hafa misrauðir kratar sungið á sínum samkomum frá því að þeirri hreyfingu tók að vaxa fiskur um hrygg fyrir daga Sovétríkjanna – og eftir þá. Þetta er jafnt söngur Jóns Baldvinssonar, Ólafs Friðrikssonar og Jóhönnu Egilsdóttur sem Gylfa Þ. Gíslasonar, Jóns Baldvins og Jóhönnu Sigurðardóttur. Þetta er alþjóðasöngur jafnaðarmanna og sá krataforingi naumast til í veröldinni (nema ef væru ódámarnir Blair og Brown) sem ekki syngur þennan söng með félögum sínum á samkomum jafnaðarmanna og verklýðssamtaka.

Þetta er söngur allra þeirra sem vilja að við berjumst fyrir því að byggja réttlátt samfélag. Þetta er herhvöt gegn kúgun, fjötrum, skorti og þjáningu. Þetta er ákall um frelsi, jafnrétti og bræðralag – samhug, einingu, dáðríki, djörfung. Öll erindin þrjú eru jafn aktúel nákvæmlega núna og þau voru á 19. öldinni.

Ég hvet alla lesendur til að standa upp á stól með hnefann á lofti og kyrja annað erindið:

Á hæðum vér ei finnum frelsi,
hjá furstum eða goðaþjóð;
nei, sameinaðir sundrum helsi
og sigrum, því ei skortir móð.
Alls hins stolna aftur vér krefjumst,
ánauð þolir hugur vor trautt,
og sjálfir brátt vér handa hefjumst
og hömrum meðan járn er rautt.

Og eftir viðlagið það þriðja:

Vér erum lagabrögðum beittir
og byrðar vorar þyngdar meir,
en auðmenn ganga gulli skreyttir
og góssi saman raka þeir.
Nú er tími til dirfsku og dáða.
Vér dugum, – þiggjum ekki af náð.
Látum bræður því réttlætið ráða,
svo ríkislög vor verði skráð.