Smurapar og lögapar og aurapar – Dagbók flettarans 27-28.06.09

28. júní 2009 · Fært í Dagbók flettarans 

Orð helgarinnar er „smurapi“. Það er úr bakþanka Bergsteins Sigurðssonar í Fréttablaðinu og er um bíladellumennina sem flykkjast að þegar þeir sjá opna vélarhlíf og hefur hver sitt sérfræðiálit fram að færa.

Smurapar. Alveg sér maður þá fyrir sér. Allir á kafi ofan í vélinni,og plömmerinn blasir við öllum á meðan þeir gramsa. Þó að Bergsteinn hafi ekki beinlínis orð á því verður þetta honum  nokkurs konar líking um vesalings þjóðfélagið okkar sem situr þarna bara fast mánuð eftir mánuð og nýir og nýir lögapar koma hver með sitt sérfræðiálit sem við hreinlega verðum að fylgja ef við eigum ekki öll að farast.

Það er hið fasta viðkvæði daganna: þið munuð öll farast.

Eina spurningin er hvernig, nákvæmlega hvenær og hverjum það er mest að kenna.

Í allri þessar kröm og vesöld er hollt að rifja upp afmæli hundadagastjórnarinnar. Upp úr aldamótunum 1800 hafði þjóðin það raunverulega skítt. Tvær aldir eru nú liðnar frá því að Jörundur Jörundarson setti hér á fót merkilega þjóðfélagstilraun sem snarlega var kveðin niður. Og enn höfum við – eins og Páll Baldvin bendir á í ábúðarfullum leiðara Fréttablaðsins – enn höfum við ekki haft í okkur döngun til að sýna minningu þessa ævintýralega manns verðugan sóma, og er þessari forðum ritglöðu þjóð brugðið að vera ekki búin að skrifa að minnsta kosti tíu bækur um hann.

Michael Jackson er minnst í Fréttablaðinu og Mogganum á nokkuð fyrirsjáanlegan hátt: popparar og lífstílsfræðingar vitna um þýðingu hans fyrir þróun popps og dansins og vídeóanna. Allt gott um það. Vel unnin úttekt er í Lesbók eftir Árna Matt  sem getur skrifað um allt, en manni finnst aðeins eins og hann nái samt ekki alveg sambandi við þá þýðingu sem MJ hafði þrátt fyrir allt – ég er ekki frá því að Árni vanmeti Michael sem lagasmið: höfundi Earthsong, Billie Jean, Man in the mirror – bara til að nefnda þrjú frábær lög – var ekki alls varnað.

Ekki skil ég í blöðunum að fá ekki ritfærasta aðdáanda MJ á landinu og þó víðar væri leitað, Hallgrím Helgason, til að skrifa eftirmælin.

Agnes Bragadóttir er ekki ástsæll blaðamaður, enda ekki mjög blíðlegur penni. Jafnvel má segja að hún sé allt að því fráhrindandi penni. En hún hefur samt býsna oft á réttu að standa í skrifum sínum um aurapana – fávitana í viðskipalífinu  og apalæti þeirra. Og þörf er ábending hennar um það hversu skaðleg seta fulltrúa atvinnurekenda í lífeyrissjóðunum hefur reynst vera. Vilhjálmur Egilsson, sem reyndar er stundum næstum aðlaðandi talsmaður sjónarmiða hefur farið mjög halloka í ritdeilu sinni við Agnesi um þetta mál.

Annars situr Mogginn nú mjög með Gunnar I. Birgisson í kjöltu sér og strýkur honum og reynir að hugga hann. Ekki kannski að undra að Gunnar sé hnugginn. Einu sinni var hann apinn á hæstu greininni. Gunnar lítur í alla barma nema sinn. Hann skilur ekkert í því hvernig allt er „gert tortryggilegt“ nú á þessum síðustu tímum. Hins vegar  virðist hann átta sig á því að nú sé nýr tíðarandi sem ekki líti á nepótisma og rassvasabókhald jafn mildilega og hér hefur löngum tíðkast. Því er flettari sammála. Það er óneitanlega nýstárleg tilfinning sem fylgir því að vera i sammála Gunnari I. Birgissyni.

Loks sér flettari ástæðu til að mótmæla hinum eilífu bréfum í Velvakanda þar sem ný og ný dulnefni (sem líkjast furðu mikið hvert öðru) heimta aftur skopmyndir Sigmunds og kvarta yfir Halldóri Baldurssyni.

Halldór Baldursson er Kjarval íslenskra skopmyndateiknara. Hann er snjallasti skopmyndateiknari sem Íslendingar hafa átt. Helst að þeir hér í eldgamla daga á Speglinum komist í hálfkvisti við hann. Teikning Halldór er frábær hvernig sem á hana er litið, myndræn úrvinnsla hugmyndarinnar er sláandi yfirleitt, og sjálf hugmyndin iðulega bæði frumleg og beitt. Hann hefur allt til að bera sem góðan skopmyndateiknara getur prýtt.

Guðmundur Andri Thorsson