Hvað stoðar það manninn að vera með níu í reikningi? -Dagbók flettarans, 23.06.09

23. júní 2009 · Fært í Dagbók flettarans 

Í Mogganum er viðtal við bálreiða foreldra yfir því að barnið þeirra skuli hafa ratað í þá miklu ógæfu í lífinu að lenda í sama menntaskóla og flettari útskrifaðist úr: MS.

Þrátt yfir níu í reikningi og átta-fimm í íslensku komst unglingurinn ekki í Versló (afsakið Verzló) og ekki heldur í MR. Og foreldar bálreiðir.

Að undanförnu hefur nokkur umræða geisað um þetta ráðslag „helstu“ Reykjavíkurskólanna, að velja til sín nemendur með hæstu einkunnirnar; styrkja stöðu sína þannig sem elítuskólar en eftirláta öðrum skólum „tossana“. Um þetta var ágætur leiðari skrifaður í Fréttablaðið mánudaginn 22.06. af Óla Kristjáni Ármannssyni og Mogginn hefur tekið upp þessa umræðu.

Nú hefur landinu verið stjórnað frá Heimastjórnartímanum af fólki sem gekk í MR og efnahagslífinu hefur verið stjórnað frá stríðslokum af fólki sem gekk í Versló. Við hvort tveggja hefur tekist til þannig að einhverjum kynni að þykja það ærin ástæða til að finna aðrar stofnanir til að mennta börnin sín, en hitt er svo aftur áleitin spurning, hvort þessi elítismi í kjölfar afnáms hverfisskóla sé ekki meira í anda þess forréttinda- stétta- og elítusamfélags sem reynt var skipulega að innleiða hér í kjölfar kvótakerfisins og beðið hefur algjör skipbrot – en þessi Nýja Íslands sem nú stendur til að byggja með norræn velferðarsamfélög sem fyrirmynd.

Dæmin sanna líka að það er stórlega ofmetið að vera með níu í reikningi. Var ekki Sigurjón Þ. Árnason alltaf með tíu í reikningi?

En núll í siðfræði, eins og flettara minnir að Einar Már Guðmundsson hafi orðað það. Sá góði rithöfundur skynjaði aldeilis tímana eins og skáldum ber að gera nú í haust og skrifaði hverja eldgreinina af annarri þar sem hann hirti dólgana og stappaði stálinu í fólkið af skáldlegu andríki. Það er smá viðtal við hann í Mogga í tilefni af því að nú er komin bók með þessum greinum, Hvíta bókin – sem eflaust verður margslungin eins og Hvíta albúmið Bítlanna.

Einar Már útskrifaðist úr MS. Og flettari er nokkurn veginn alveg viss um að hann var aldrei  með níu í reikningi.

Annar Einar Már og ritsnillingur líka þó ólíkur sé, enda Jónsson, skrifar á mánudag bráðskemmtilega Skoðunargrein um gys sem gert var að Sarkozi eins og manni bera að gera við forseta, og Gerður Kristný bauð upp á fyndna hraðmynd frá Rithöfundaþingi í Lahti sem hafði þegar að var gáð líka að geyma beitt skop um hégómaskap og tildur. Báðar greinarnar eru vel byggðar og síðasta setningin hjá Gerði þannig að maður grípur andann á lofti.

Sumum finnst gaman að vera ráðherrar.

Það finnst til dæmis Kristjáni Möller samgönguráðherra norðlendinga. Stóreinkennilegt viðtal við hann var í sama blaði, að því er virtist fyrst og fremst til að tilkynna kjósendum sínum nyrðra að þeir fengju nóg malbik, nóg göng og Samgöngumiðstöð í Reykjavík.

Á sama tíma og aðrir ráðherrar mega skera niður í raunverulegum nauðsynjamálum – menntun, heilbrigði, þjónustu við fatlaða, öryrkja og aldraða… –  þá gumar Kristján Möller af því að árið 2009 verði „annað mesta framkvæmdaár vegagerðar á Íslandi.“ Hann lofar malbiki. Síðan koma  gamalkunnar heitstrengingar um Samgöngumiðstöð í Reykjavík sem Kristjáni Möller er jafn mikið ástríðumál og Óla Jó var endurreisn Vestmannaeyja: Hún SKAL RÍSA… en þessi mikla ástríða virðist vakin af þeirri lífseigu þráhyggju norðlendinga að þeir eigi heilagan rétt umfram borgarbúa sjálfa á því að stjórna skipulagsmálum í miðri Reykjavík vegna þeirrar fórnfýsi sinnar að búa ekki í Reykjavík.

Við viljum ekki þennan malbiksaustur. Við viljum fá að sjá viðtöl við ráðherra þar sem þeir guma af ráðdeild.

Í eðlilegu árferði væri þessi Samgöngumiðstöðvardella að sönnu hvimleið en kannski skopleg í aðra röndina en í yfirstandandi árferði er erfitt að finna orð sem lýsa svona áhugamáli. Er ekki hægt að senda Kristján eitthvað með Gunnari Birgissyni – á einhvern stað þar sem fólk þarf svona malbikshetjur? Túrkmenistan? Er þar ekki verið mikið að reisa volduga minnisvarða?

Kári Stefánsson skrifar um verðuga minnisvarða í Moggann í dag: Tónlistarhúsið sem er minnisvarði um eitthvað allt annað en tónlist. Kári gerist í þessari grein talsmaður ráðdeildar og skynsamlegrar fjárfestingar. Hann er í raun alveg ótrúlega sannfærandi í því hlutverki.

Og óneitanlega er það verðugt umhugsunarefni hvort ekki sé ástæða til að staldra við með Tónlistarhúsið og endurskoða allt það dæmi með hliðsjón af því að Reykjavík verður aldrei aldrei alþjóðleg fjármálamiðstöð (Aldrei aftur Hiroshima!). En hins vegar eigum við hér framúrskarandi sinfóníuhljómsveit (í alvöru) sem flettara að minnsta kosti dreymir um að heyra í góðum sal áður en hann deyr.

Fréttablaðið er - rétt eins og Mogginn - annars nokkuð gott með morgunkaffinu. Þar er að vísu dálítið um skringimenni sem skrifa í blaðið skringifréttir um önnur skringimenni en þættir af einkennilegum mönnum virðast ætla að fylgja þessari þjóð alla tíð. Aftur á móti var í dag bakþankagrein eftir Pál Baldvin sem lætur mann allt í einu fara að hugsa um merkingu orðsins „djúpúðgur“. Sú  grein er alveg áreiðanlega um eitthvað.

GAT