Dauft er í sveitum – dagbók flettarans 13.6.09

13. júní 2009 · Fært í Dagbók flettarans, Óflokkað 

Eva Joly viðhafði fáheyrðar aðferðir við að hafa sitt fram í vikunni: hún kom fram í fjölmiðlum. Og það var ekki til að bregðast við, snúa út úr, fara undan í flæmingi, fela, leyna, rugla, bulla – nei: hún kom fram í fjölmiðlum að eigin frumkvæði til þess að segja fólki eitthvað.

Svona gera náttúrlega bara útlendingar.

Og síðan hafa lögmenn keppst um að gera lítið úr henni. Á sumum er að skilja að Eva Joly og Sigríður Benediktsdóttir standi helst í vegi fyrir endurreisn landsins.

Annars er heldur dauft yfir blöðunum í dag, og skyldi engan undra. Hnipin þjóð í vanda. Við erum öll að þreytast. Áttundi mánuðurinn í Kreppu og enn sama strögglið, sama þokan, sama liðið að þybbast við. Að vísu verið að greiða úr Icesave.

Eða er það ekki?

Veðurfræðingurinn Haraldur Ólafsson finnur enn nýjan flöt á andstöðunni við Evrópusambandið í grein í Fréttablaðinu.

Af nokkurri fimi leiðir hann í ljós að hér sé um að ræða hernaðarbandalag. Fram að þessu höfum við talið að Evrópusambandið sé eitthvert máttugasta friðarbandalag í sögu Evrópu og jafnvel helsta ástæða þess að friður hefur haldist í þeim parti Evrópu sem það nær yfir frá 1945 – en nei: þetta er hernaðarvél að mati Haraldar, og enn ein ástæðan fyrir Íslendinga að halda sig utan við það. Hina friðelskandi Íslendinga. Hina mildu Íslendinga. Hina góðu Íslendinga. Hina öðruvísi en alla aðra Íslendinga. Hina ljúfu, blíðu, nægjusömu, kærleiksríku,hógværu, friðelskandi Íslendinga…

Skemmtilegt viðtal við Þröst Leó, þann afburðaleikara sem flettari myndi semja leikrit fyrir ef hann kynni að semja slíkt. Júlía Margrét er dugnaðarforkur og teflir líka saman tveimur ung-poppurum úr sitthvorum geira, Jóhönnu Guðrúnu og Unnstein Manuel. Þau eru kannski ekki alveg nógu ólík þegar til á að taka, þó að samtal þeirra sé ósköp notalegt yfir kornfleiksinu…

Annað nokkuð skemmtilegt viðtal skrifar Jakob Bjarnar við Helga Björnsson rokkara. Þar rymja þeir hvor á annan um startkafla, sveitaböll, fótbolta og annað karlmannlegt. Jakob er svo líka með myndir af Stefáni Mána að hnykla vöðvana – og brýnnar – grín um Evu Joly og annað karlmannlegt.

Í Mogga eru Staksteinar að þessu sinni ekki um Steingrím Jóhann. Hins vegar er maður búinn að gleyma um hvað dálkurinn er um leið og búið er að fletta. Öllu ánægjulegri flettingar eru á blaðsíðu 18 þar sem borgarstjórinn í Reykjavík sést tyrfa Lækjartorg með bjart bros á vör. Óskandi að þetta sé ávitull um blóm í haga á þessu hroðalega torgi – og Akureyringar ættu að taka sér þetta til fyrirmyndar og endurvekja Ráðhústorgið í fyrri mynd.

Í Lesbók er áhugaverð grein eftir Gerði Steinþórsdóttur um einn af þessum skrýtnu Englendingum sem hingað rákust og skrifuðu um það ferðabók; Watts þann sem skrifaði bókina „Norður yfir Vatnajökul“. Prýðileg grein. En er ekki kominn tími til að endurskoða smágreinastefnuna á Lesbókinni? Allt þetta smælki um plötur og  bækur og bíómyndir innan um forljótan grænan rasta sem verður einhvern veginn það eina sem maður sér…

Guðmundur Andri Thorsson