Æðrast eigandinn – dagbók flettarans 9.6.09

9. júní 2009 · Fært í Dagbók flettarans 

Þau tíðindi gerðust í dag í blöðunum að Björgólfur Guðmundsson fyrrum eigandi Landsbankans harmaði það sem gerst hafði…

Eflaust þykir mörgum kominn tími til að heyrist í honum. Þjóðfélagið logar enn einu sinni út af Icesave-reikningunum sem falla nú af fullu afli á þetta þjóðarkríli. Tímabært að gamli eigandinn – að ekki sé talað um soninn – tjáði sig um þau ósköp sem bankinn hefur valdið í lífi þessarar þjóðar með delluganginum í Englandi.

Það hefur hann ekki beinlínis gert. En þó varðar eftirsjá hans dellugang í Englandi. Annan. Frá því segir í mogga að hjartnæm yfirlýsing hafi birst frá honum á vef enska fótboltafélagsins West Ham. Hann kveðst yfirgefa félagið „með miklum söknuði“.

Og lofar að koma aftur.