Síðasta helgi var óvenju annasöm. Eins og fram hefur komið hér á vefnum sá ég bæði Svanir skilja ekki í Þjóðleikhúsinu OG Ragnheiði í Íslensku óperunni en það var ekki allt og sumt. Á fimmtudagskvöldið tók ég þátt í ævintýralegri tilraun Gjörningaklúbbsins í Listasafni Íslands, horfðist i augu við bláókunnugan mann í klukkutíma, að mér fannst, og lét hermannlegar kvenpersónur skikka mig fram og aftur. Það var verulega skemmtilegt og fullt af óvæntum uppákomum, listrænni túlkun og fögru handverki. Á sunnudagskvöldið sá ég svo einkennilegustu sýningu helgarinnar, dans- og söguskemmtunina Dansaðu fyrir mig í Tjarnarbíó.

Dansaðu fyrir migÍ verkinu segir frá því þegar Ármann Einarsson, tónlistarkennari um fimmtugt, lætur tengdadóttur sína, enska danshöfundinn Brogan Davison, kenna sér að dansa nútímadans. Hann hefur lengi dreymt um að læra að dansa og þarna rætast draumar hans. Kannski ætlaði hann aldrei að láta þetta ganga lengra en Brogan er atvinnumaður og sá möguleikana á að láta öðrum þetta að kenningu verða. Með þeim er sonur Ármanns, Pétur, sem er leikari og leikstýrir sýningunni. Inn á milli dansatriðanna segja þau Ármann og Brogan sögur úr lífi sínu, meðal annars segir Brogan frá skelfilegu óveðri sem gekk yfir Suður-England nóttina sem hún fæddist. Sýningin er líka brotin upp með samtölum Ármanns og Brogan á myndbandi.

Þetta verk kallast skemmtilega á við leikrit Auðar Ólafsdóttur, Svanir skilja ekki. Einnig þar verður dansinn tæki til að mýkja, slaka og veita hamingju og sálarfrið. En þó að maður geti tekið ofan fyrir Ármanni fyrir kraftinn og einbeitnina – og hugmyndina – get ég ekki sagt að ég hafi haft gaman af dansinum sem slíkum. Hann var ansi einhæfur og leiðigjarn – og ekkert líflegri hjá Brogan þótt maður hefði getað búist við því. Það eru ekki sporin sem maður hefur gaman af að sjá þegar maður fer á danssýningu, það eru hreyfingar dansaranna, túlkun þeirra, list þeirra. Hún var ekki áberandi þetta kvöld. En sögurnar voru góðar.

Silja Aðalsteinsdóttir