Silfur og aftur silfur – Dagbók flettarans – 8.6.09

8. júní 2009 · Fært í Dagbók flettarans 

Enn eitt silfrið er á baksíðu Moggans: Gunnar Nelson mun hafa unnið silfur í jú-jútsó í Los Angeles. Það er virkilega ánægjulegt og til marks um þroska þjóðarinnar, þrátt fyrir allt. Sú var tíðin að Jóhannes á Borg var alltaf að slást við einhvern Jú-jútsó kall frá Japan. Og vann hann í öll sexhundruð skiptin sem þeir áttust við. Nú erum við hins vegar sjálf farin að leggja þessa snaggaralegu íþrótt fyrir okkur. 

Og vinnum náttúrlega silfrið.

Eins og í leiknum gegn Hollendingum. Þar unnum við silfrið eftir glæstan seinni hálfleik sem vannst 1-0. Hollendingar sigruðu að vísu fyrri hálfleikinn 2-0 en það var að sögn bara vegna þess að Eiður Smári var alltaf hafður frammi og fékk því aldrei boltann sem barst aldrei yfir miðju. 

Svavar Gestsson talar eins og við höfum unnið silfrið í Icesavemálinu. Hann er alltaf sigurviss og hress og það er virkilega ánægjulegt að sjá hann aftur. Og heyra hann – „skilurðu“ – eiginlega eitthvað traustvekjandi; og ég trúi öllu sem hann segir.

Það eru gamlir Allaballar úti um allt. Steingrímur J. náttúrlega, Álfheiður, Árni Páll og auðvitað Ólafur Ragnar. Hann er í viðtali í Mannlífi sem er vel skrifað og margt þar sagt af skynsamlegu viti eins og vænta mátti – en ég get ekki gert að því að ég fer æ oftar að undanförnu að velta fyrir mér ljósmyndunum af manninum: þær eru mér ráðgáta.

Framan á bókinni um Ólaf stóð hann til dæmis með annan fótinn í snjóskafli. Á bak við hann geysaði eitthvert framsækið orkuver en hann þarna á blankskóm með fótinn í skaflinum og maður gat ekki hætt að hugsa um það hvað hann væri eiginlega að gera ofan í þessum skafli, hvort það væri ekki óþægilegt, hvort hann væri orðinn kaldur og blautur, hvort hann myndi ekki kvefast, hvort hann væri kannski fastur…

Og nú með þessu  viðhafnarviðtali í sjálfu Mannlífi stendur hann á hinu fagra Álftanesi með kyrrlátt bros á vör og virðist halda á einhverju – eða jafnvel veifa því. Er þetta sokkur? Er þetta kannski vettlingur?

Er hann þá þessi hver sem vettlingi getur valdið?

Guðm. Andri Thorsson