Minn herra á aungvan vin – nema… – Dagbók flettarans 18.07.09

18. júlí 2009 · Fært í Dagbók flettarans ·  

Ólafur Stephensen gerir tilraun til að ræskja sig mynduglega í Staksteinum dagsins. Þar er fréttaskýringum Agnesar Bragadóttur andmælt, djúpri og ábúðarmikilli röddu. Það mun koma fyrir lítið. Það verður eins og að skvetta vatni á gæs.

Morgunblaðið hefur nú verið um nokkurra vikna skeið helgað agneskum fréttaskýringum og heiftúðugum andstöðuskrifum við ríkisstjórn, Icesave og ESB. Meira að segja hinn einatt geðslegi vísnadálkur Péturs Blöndal var einn daginn helgaður leirbornu níði um Steingrím J. Sigfússon. Gott ef Ferdinand var ekki farinn að þruma gegn Icesave yfir sinni mæddu eiginkonu.

Á meðan gengur einn af helstu aðstandendum Icesave, Kjartan Gunnarsson, um eins og hver annar borgari sem mark eigi að taka á og ávítar meira að segja Þorgerði Katrínu fyrir það hvernig hún hagar þingstörfum sínum eins og hann hafi eitthvað yfir henni að segja eða sé yfirleitt í þeirri stöðu að geta tekið til máls þannig að fólk hlusti.

DV er í ham um þessar mundir og tekur í lurga á fjárglæframönnunum – svona flestum að minnsta kosti. Það er bara Egill Helgason sem lætur jafnt yfir alla ganga.

Að vísu sér maður stundum skrýtnar fyrirsagnir í DV eins og þá að best sé að búa á Seltjarnarnesi – eins og slíkt sé hægt að reikna út frá fasteignagjöldum eða einhverjum slíkum búðarlokusjónarmiðum. Það er áreiðanlega misskilingur. Hins vegar hefur blaðið verið duglegt að beina kastljósinu að óhæfuverkum bankasvindlaranna og gegnir þannig mikilsverðu hlutverki.

Það skaut þó skökku við um síðustu helgi að blaðið skyldi í úttekt sinni á gáfaðasta fólki landsins útnefna þar sjálfan skapara kerfis og hruns, Davíð Oddsson, og líka Svöfu Grönfeldt einn aðalhöfund frægrar skýrslu um ímynd Íslendinga sem full var af þvaðri um „víkingseðli“ Íslendinga, og virkaði á mann eins og tilraun til að skapa nokkurs konar fræðilegan grundvöll að ránskapnum um sparifjárlendur Evrópu.

Þarna var líka Halldór Laxness sem flettari hélt að væri látinn fyrir nokkru.

En svo var þarna að vísu líka bæði bráðgáfað fólk og sprelllifandi eins og Vigdís forseti og Illugi Jökulsson.

Gáfað fólk: Davíð Þór skrifar alltaf skemmtilega bakþanka með góðri og vandaðri hugsun; og nú síðast í laugardagsblaðið. Pistillinn fjallar að þessu sinni um flettara og fjölskyldu hans, þó að svo kunni að virðast fram að síðustu málsgrein að hann fjalli um annað.

Annar góðpenni er Þorsteinn Pálsson. Flettari er af gömlum íhaldsættum og sjálfsagt íhald inn við beinið, að minnsta kosti rótgróinn velunnari Sjálfstæðisflokksins þótt misjafnlega sýni hann dálæti sitt. En nú eru skrýtnir tímar og full ástæða til að veita Sjálfstæðismönnum heilræði, því að upplausnarástandið innan flokksins snertir okkur öll og gerir það nánast óbærilegt að fylgjast með þingstörfum. Af hverju bakkar flokkurinn ekki bara duglega til baka – alla leið á þann punkt þegar hann tók röngu beygjuna? Og fær Þorstein Pálsson til að leiða flokkinn á ný?

Ragna Árnadóttir vinnur verk sín hljóð og virðist öllum mönnum góð af fréttum að dæma. Hún ætlar samkvæmt forsíðu Fréttablaðsins enn að styrkja stöðu saksóknarans sérstaka og færa efnahagsbrotadeild frá ríkislögreglustjóra. Ekki mun af veita. Það mun þurfa samfellt átak allra mestu reikningshausa og lagaspekinga landsins til að greiða úr flækjunum sem reikningshausar pappírsvíkinganna skildu eftir sig. Þar þarf gáfað fólk.

Annars er Fréttablaðið hálf júlílegt um þessar mundir. Enginn Páll Baldvin, enginn Bergsteinn, engin Júlía Margrét; meira að segja lítið um þætti af einkennilegum mönnum frá Jakobi Bjarnari.

Hins vegar er þar mættur glaðbeittur í viðtal Jón Ólafsson viðskiptamaður. Og óspar á heilræði sín þjóðinni til handa um það hvernig hún á að efla orðspor sitt í viðskiptum. Hann vill ráða þjóðinni heilt í viðskiptasiðferðisefnum og tekur eindregið undir hugmyndir Davíðs Oddssonar um hina svokölluðu „dómstólaleið“.

Sú leið virðist í fljótu bragði snúast um að láta Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólaf Börk dæma í Icesave-málinu. Undirtektir hafa að vonum verið hálf daufar jafnvel þótt Davíð telji sig sýnilega hafa ástæðu til að ætla að úrskurður þeirra verði íslensku þjóðinni hagstæður. Menn hafa jafnvel óttast að þá kynni að spyrjast út hvernig að ráðningu þessara manna var staðið í Hæstarétt á sínum tíma. Icesavemálið snýst nefnilega líka um það hvort íslenska ríkið ætlar að láta taka sig alvarlega.

Nú hefur Davíð bæst liðsauki.

Hannes Hólmsteinn gæti nú sagt – með eða án gæsalappa: Minn herra á aungvan vin – nema Jón Ólafsson.
Guðmundur Andri Thorsson

Smurapar og lögapar og aurapar – Dagbók flettarans 27-28.06.09

28. júní 2009 · Fært í Dagbók flettarans ·  

Orð helgarinnar er „smurapi“. Það er úr bakþanka Bergsteins Sigurðssonar í Fréttablaðinu og er um bíladellumennina sem flykkjast að þegar þeir sjá opna vélarhlíf og hefur hver sitt sérfræðiálit fram að færa.

Smurapar. Alveg sér maður þá fyrir sér. Allir á kafi ofan í vélinni,og plömmerinn blasir við öllum á meðan þeir gramsa. Þó að Bergsteinn hafi ekki beinlínis orð á því verður þetta honum  nokkurs konar líking um vesalings þjóðfélagið okkar sem situr þarna bara fast mánuð eftir mánuð og nýir og nýir lögapar koma hver með sitt sérfræðiálit sem við hreinlega verðum að fylgja ef við eigum ekki öll að farast.

Það er hið fasta viðkvæði daganna: þið munuð öll farast.

Eina spurningin er hvernig, nákvæmlega hvenær og hverjum það er mest að kenna.

Í allri þessar kröm og vesöld er hollt að rifja upp afmæli hundadagastjórnarinnar. Upp úr aldamótunum 1800 hafði þjóðin það raunverulega skítt. Tvær aldir eru nú liðnar frá því að Jörundur Jörundarson setti hér á fót merkilega þjóðfélagstilraun sem snarlega var kveðin niður. Og enn höfum við – eins og Páll Baldvin bendir á í ábúðarfullum leiðara Fréttablaðsins – enn höfum við ekki haft í okkur döngun til að sýna minningu þessa ævintýralega manns verðugan sóma, og er þessari forðum ritglöðu þjóð brugðið að vera ekki búin að skrifa að minnsta kosti tíu bækur um hann.

Michael Jackson er minnst í Fréttablaðinu og Mogganum á nokkuð fyrirsjáanlegan hátt: popparar og lífstílsfræðingar vitna um þýðingu hans fyrir þróun popps og dansins og vídeóanna. Allt gott um það. Vel unnin úttekt er í Lesbók eftir Árna Matt  sem getur skrifað um allt, en manni finnst aðeins eins og hann nái samt ekki alveg sambandi við þá þýðingu sem MJ hafði þrátt fyrir allt – ég er ekki frá því að Árni vanmeti Michael sem lagasmið: höfundi Earthsong, Billie Jean, Man in the mirror – bara til að nefnda þrjú frábær lög – var ekki alls varnað.

Ekki skil ég í blöðunum að fá ekki ritfærasta aðdáanda MJ á landinu og þó víðar væri leitað, Hallgrím Helgason, til að skrifa eftirmælin.

Agnes Bragadóttir er ekki ástsæll blaðamaður, enda ekki mjög blíðlegur penni. Jafnvel má segja að hún sé allt að því fráhrindandi penni. En hún hefur samt býsna oft á réttu að standa í skrifum sínum um aurapana – fávitana í viðskipalífinu  og apalæti þeirra. Og þörf er ábending hennar um það hversu skaðleg seta fulltrúa atvinnurekenda í lífeyrissjóðunum hefur reynst vera. Vilhjálmur Egilsson, sem reyndar er stundum næstum aðlaðandi talsmaður sjónarmiða hefur farið mjög halloka í ritdeilu sinni við Agnesi um þetta mál.

Annars situr Mogginn nú mjög með Gunnar I. Birgisson í kjöltu sér og strýkur honum og reynir að hugga hann. Ekki kannski að undra að Gunnar sé hnugginn. Einu sinni var hann apinn á hæstu greininni. Gunnar lítur í alla barma nema sinn. Hann skilur ekkert í því hvernig allt er „gert tortryggilegt“ nú á þessum síðustu tímum. Hins vegar  virðist hann átta sig á því að nú sé nýr tíðarandi sem ekki líti á nepótisma og rassvasabókhald jafn mildilega og hér hefur löngum tíðkast. Því er flettari sammála. Það er óneitanlega nýstárleg tilfinning sem fylgir því að vera i sammála Gunnari I. Birgissyni.

Loks sér flettari ástæðu til að mótmæla hinum eilífu bréfum í Velvakanda þar sem ný og ný dulnefni (sem líkjast furðu mikið hvert öðru) heimta aftur skopmyndir Sigmunds og kvarta yfir Halldóri Baldurssyni.

Halldór Baldursson er Kjarval íslenskra skopmyndateiknara. Hann er snjallasti skopmyndateiknari sem Íslendingar hafa átt. Helst að þeir hér í eldgamla daga á Speglinum komist í hálfkvisti við hann. Teikning Halldór er frábær hvernig sem á hana er litið, myndræn úrvinnsla hugmyndarinnar er sláandi yfirleitt, og sjálf hugmyndin iðulega bæði frumleg og beitt. Hann hefur allt til að bera sem góðan skopmyndateiknara getur prýtt.

Guðmundur Andri Thorsson

Hvað stoðar það manninn að vera með níu í reikningi? -Dagbók flettarans, 23.06.09

23. júní 2009 · Fært í Dagbók flettarans ·  

Í Mogganum er viðtal við bálreiða foreldra yfir því að barnið þeirra skuli hafa ratað í þá miklu ógæfu í lífinu að lenda í sama menntaskóla og flettari útskrifaðist úr: MS.

Þrátt yfir níu í reikningi og átta-fimm í íslensku komst unglingurinn ekki í Versló (afsakið Verzló) og ekki heldur í MR. Og foreldar bálreiðir.

Að undanförnu hefur nokkur umræða geisað um þetta ráðslag „helstu“ Reykjavíkurskólanna, að velja til sín nemendur með hæstu einkunnirnar; styrkja stöðu sína þannig sem elítuskólar en eftirláta öðrum skólum „tossana“. Um þetta var ágætur leiðari skrifaður í Fréttablaðið mánudaginn 22.06. af Óla Kristjáni Ármannssyni og Mogginn hefur tekið upp þessa umræðu.

Nú hefur landinu verið stjórnað frá Heimastjórnartímanum af fólki sem gekk í MR og efnahagslífinu hefur verið stjórnað frá stríðslokum af fólki sem gekk í Versló. Við hvort tveggja hefur tekist til þannig að einhverjum kynni að þykja það ærin ástæða til að finna aðrar stofnanir til að mennta börnin sín, en hitt er svo aftur áleitin spurning, hvort þessi elítismi í kjölfar afnáms hverfisskóla sé ekki meira í anda þess forréttinda- stétta- og elítusamfélags sem reynt var skipulega að innleiða hér í kjölfar kvótakerfisins og beðið hefur algjör skipbrot – en þessi Nýja Íslands sem nú stendur til að byggja með norræn velferðarsamfélög sem fyrirmynd.

Dæmin sanna líka að það er stórlega ofmetið að vera með níu í reikningi. Var ekki Sigurjón Þ. Árnason alltaf með tíu í reikningi?

En núll í siðfræði, eins og flettara minnir að Einar Már Guðmundsson hafi orðað það. Sá góði rithöfundur skynjaði aldeilis tímana eins og skáldum ber að gera nú í haust og skrifaði hverja eldgreinina af annarri þar sem hann hirti dólgana og stappaði stálinu í fólkið af skáldlegu andríki. Það er smá viðtal við hann í Mogga í tilefni af því að nú er komin bók með þessum greinum, Hvíta bókin – sem eflaust verður margslungin eins og Hvíta albúmið Bítlanna.

Einar Már útskrifaðist úr MS. Og flettari er nokkurn veginn alveg viss um að hann var aldrei  með níu í reikningi.

Annar Einar Már og ritsnillingur líka þó ólíkur sé, enda Jónsson, skrifar á mánudag bráðskemmtilega Skoðunargrein um gys sem gert var að Sarkozi eins og manni bera að gera við forseta, og Gerður Kristný bauð upp á fyndna hraðmynd frá Rithöfundaþingi í Lahti sem hafði þegar að var gáð líka að geyma beitt skop um hégómaskap og tildur. Báðar greinarnar eru vel byggðar og síðasta setningin hjá Gerði þannig að maður grípur andann á lofti.

Sumum finnst gaman að vera ráðherrar.

Það finnst til dæmis Kristjáni Möller samgönguráðherra norðlendinga. Stóreinkennilegt viðtal við hann var í sama blaði, að því er virtist fyrst og fremst til að tilkynna kjósendum sínum nyrðra að þeir fengju nóg malbik, nóg göng og Samgöngumiðstöð í Reykjavík.

Á sama tíma og aðrir ráðherrar mega skera niður í raunverulegum nauðsynjamálum – menntun, heilbrigði, þjónustu við fatlaða, öryrkja og aldraða… –  þá gumar Kristján Möller af því að árið 2009 verði „annað mesta framkvæmdaár vegagerðar á Íslandi.“ Hann lofar malbiki. Síðan koma  gamalkunnar heitstrengingar um Samgöngumiðstöð í Reykjavík sem Kristjáni Möller er jafn mikið ástríðumál og Óla Jó var endurreisn Vestmannaeyja: Hún SKAL RÍSA… en þessi mikla ástríða virðist vakin af þeirri lífseigu þráhyggju norðlendinga að þeir eigi heilagan rétt umfram borgarbúa sjálfa á því að stjórna skipulagsmálum í miðri Reykjavík vegna þeirrar fórnfýsi sinnar að búa ekki í Reykjavík.

Við viljum ekki þennan malbiksaustur. Við viljum fá að sjá viðtöl við ráðherra þar sem þeir guma af ráðdeild.

Í eðlilegu árferði væri þessi Samgöngumiðstöðvardella að sönnu hvimleið en kannski skopleg í aðra röndina en í yfirstandandi árferði er erfitt að finna orð sem lýsa svona áhugamáli. Er ekki hægt að senda Kristján eitthvað með Gunnari Birgissyni – á einhvern stað þar sem fólk þarf svona malbikshetjur? Túrkmenistan? Er þar ekki verið mikið að reisa volduga minnisvarða?

Kári Stefánsson skrifar um verðuga minnisvarða í Moggann í dag: Tónlistarhúsið sem er minnisvarði um eitthvað allt annað en tónlist. Kári gerist í þessari grein talsmaður ráðdeildar og skynsamlegrar fjárfestingar. Hann er í raun alveg ótrúlega sannfærandi í því hlutverki.

Og óneitanlega er það verðugt umhugsunarefni hvort ekki sé ástæða til að staldra við með Tónlistarhúsið og endurskoða allt það dæmi með hliðsjón af því að Reykjavík verður aldrei aldrei alþjóðleg fjármálamiðstöð (Aldrei aftur Hiroshima!). En hins vegar eigum við hér framúrskarandi sinfóníuhljómsveit (í alvöru) sem flettara að minnsta kosti dreymir um að heyra í góðum sal áður en hann deyr.

Fréttablaðið er - rétt eins og Mogginn - annars nokkuð gott með morgunkaffinu. Þar er að vísu dálítið um skringimenni sem skrifa í blaðið skringifréttir um önnur skringimenni en þættir af einkennilegum mönnum virðast ætla að fylgja þessari þjóð alla tíð. Aftur á móti var í dag bakþankagrein eftir Pál Baldvin sem lætur mann allt í einu fara að hugsa um merkingu orðsins „djúpúðgur“. Sú  grein er alveg áreiðanlega um eitthvað.

GAT

Þriðja Þorskastríðið er tapað – dagbók flettarans 21.06.09

21. júní 2009 · Fært í Dagbók flettarans ·  

Herdís Þorgeirsdóttir skrifar magnaða grein á laugardag í Fréttablaðið sem fer langt með að sannfæra mann um að Icesave-samningarnir séu svívirða. En ekki alveg alla leið.

Eitt og annað vefst fyrir manni:

Í fyrsta lagi finnst manni að Íslendingum beri að standa við skuldbindingar sínar, hversu galnar sem þær voru, og að nokkru varði, gangi ekki að uppfylla þær, að geta sagt: við reyndum; þetta gekk ekki; semjum upp á nýtt.

Í öðru lagi verðum við alltaf að muna að fórnarlömb þessa máls eru sparifjáreigendur í Hollandi og Englandi  þar sem Landsbankinn hafði fengið að ginna fólk til að setja peninga inn á reikninga sína.

Í þriðja lagi eru Íslendingar ekki jafn saklausir og þeir vilja vera láta – fórnarlömb vissulega en ekki endilega saklaus fórnarlömb. Hér um þjóðfélagið flæddi ódýrt fjármagn og hér á Íslandi var keypt meira af jeppum og öðru þungaglingri  en nokkur hemja var. Íslendingar keyptu sér varning og fjárfestu í húsnæði með peningum sem þeir áttu ekki; hvorki heimilin né bankarnir – eða sveitafélögin sem tæmdu sjóðina á feitu árunum til að eiga ekkert til að mæta mögru árunum.

Nú er komið að skuldadögunum. Og þá reynir maður að semja við lánadrottna. Hvað sem kann að líða hugmyndum Stefáns lagaprófessors um að það sé matsatriði skuldarans hvenær skuldbindingarnar eigi við. Eða sanngirnismál.

Í fjórða lagi vefst þetta fyrir manni: Hvað þá? Því eins og Lára Hanna bendir á í bloggi sínu erum við ekki öll hetjur – það er að segja sá hluti almennings sem ekki hefur mætt á Austurvöll til að mótmæla samningunum. Sjálf  dregur hún þá ályktun að við, þessi sem ekki erum hetjur eins og hún, séum öll í Kringlunni „að dúlla sér“, viljum láta aðra sjá um púlið – og jafnvel að okkur standi á sama um framtíð barnanna okkar og barnabarnanna.

Það er kannski nokkuð orðum aukið.

Kannski erum við einmitt að hugsa um framtíð barnanna og barnabarnanna þegar við styðjum viðleitni stjórnvalda til að semja við alþjóðasamfélagið um skuldbindingar Íslendinga. Því það er óbærileg tilhugsun að Íslendingar verði paríaríki norður í Ballarhafi; Bjartur kominn upp í Urðarsel… Við vitum ekki hvað gerist ef Íslendingar hafna samningnum og allt fer í uppnám. Við vitum ekki hver niðurstaða dómstóla verður. Hins vegar vitum við að eignir Landsbankans duga frá 75 prósent og upp í 95 prósent af þessum skuldum. Við vitum líka að aðrar skuldir Íslendinga eru geigvænlegar. Við vitum að vonlaust er með öllu að Íslendingar geti unnið sig út úr skuldum sínum öðru vísi en með hjálp og í samvinnu við önnur ríki Evrópu. Við verðum að að droppa Stóra Planinu…

Og kannski þurfum við einmitt á öðru að halda nú um stundir en hetjuskap.

Við háðum tvö Þorskastríð við Breta – mjög hetjuleg. Þá vildu þeir veiða í íslenskri lögsögu en urðu frá að hverfa vegna þess að innan Nató var það metið sem svo að vestræn ríki hefðu ríkari hagsmuni af því að hafa Ísland með sér en Hull og Grimsby hefðu af veiðum við Ísland.

Þessi staða Íslendinga innan alþjóðasamfélagsins virðist hafa ruglað þessa litlu þjóð rækilega í ríminu – kannski að rót alls vandans liggi þegar allt kemur til alls í veru hersins hér á landi? Að minnsta kosti ber framferði Íslendinga á umliðnum árum vott um meiri smáþjóðaderring, meira oflæti en dæmi eru um – og yfirþyrmandi áhættusækni sem virðist annars vegar vaxin úr íslenskri karlamenningu og hins vegar knúin af trú á því að manni verði alltaf reddað. Því þannig var það alltaf. Íslenskir (land)ráðamenn virtust alls ekki átta sig á því hvernig staða þjóðarinnar gjörbreyttist við hrun kommúnismans; virtust ekki gera sér grein fyrir því að svona þjóðarkríli getur ekki þrifist nema í skjóli.

Ekki var nóg með að við þessir almennu Íslendingar sem hvorki erum hetjur né snillingar, mættum sæta því sárnauðug að búa við það á ferðum erlendis að vera spyrt saman við ofdramb og heimsku hinna síkaupandi samlanda okkar – nei, okkar góða nafn, sem Björk og aðrir listamenn höfðu ekki síst byggt upp, var notað á kaldrifjaðan hátt til að veiða í breskri lögsögu. Veiða peninga.

En nú var enginn bakhjarl. Ekkert skjól.

Þetta varð síðasta þorskastriðið. Á endanum urðum við þorskarnir. Á þurru landi.

Guðmundur Andri Thorsson

Dauft er í sveitum – dagbók flettarans 13.6.09

13. júní 2009 · Fært í Dagbók flettarans, Óflokkað ·  

Eva Joly viðhafði fáheyrðar aðferðir við að hafa sitt fram í vikunni: hún kom fram í fjölmiðlum. Og það var ekki til að bregðast við, snúa út úr, fara undan í flæmingi, fela, leyna, rugla, bulla – nei: hún kom fram í fjölmiðlum að eigin frumkvæði til þess að segja fólki eitthvað.

Svona gera náttúrlega bara útlendingar.

Og síðan hafa lögmenn keppst um að gera lítið úr henni. Á sumum er að skilja að Eva Joly og Sigríður Benediktsdóttir standi helst í vegi fyrir endurreisn landsins.

Annars er heldur dauft yfir blöðunum í dag, og skyldi engan undra. Hnipin þjóð í vanda. Við erum öll að þreytast. Áttundi mánuðurinn í Kreppu og enn sama strögglið, sama þokan, sama liðið að þybbast við. Að vísu verið að greiða úr Icesave.

Eða er það ekki?

Veðurfræðingurinn Haraldur Ólafsson finnur enn nýjan flöt á andstöðunni við Evrópusambandið í grein í Fréttablaðinu.

Af nokkurri fimi leiðir hann í ljós að hér sé um að ræða hernaðarbandalag. Fram að þessu höfum við talið að Evrópusambandið sé eitthvert máttugasta friðarbandalag í sögu Evrópu og jafnvel helsta ástæða þess að friður hefur haldist í þeim parti Evrópu sem það nær yfir frá 1945 – en nei: þetta er hernaðarvél að mati Haraldar, og enn ein ástæðan fyrir Íslendinga að halda sig utan við það. Hina friðelskandi Íslendinga. Hina mildu Íslendinga. Hina góðu Íslendinga. Hina öðruvísi en alla aðra Íslendinga. Hina ljúfu, blíðu, nægjusömu, kærleiksríku,hógværu, friðelskandi Íslendinga…

Skemmtilegt viðtal við Þröst Leó, þann afburðaleikara sem flettari myndi semja leikrit fyrir ef hann kynni að semja slíkt. Júlía Margrét er dugnaðarforkur og teflir líka saman tveimur ung-poppurum úr sitthvorum geira, Jóhönnu Guðrúnu og Unnstein Manuel. Þau eru kannski ekki alveg nógu ólík þegar til á að taka, þó að samtal þeirra sé ósköp notalegt yfir kornfleiksinu…

Annað nokkuð skemmtilegt viðtal skrifar Jakob Bjarnar við Helga Björnsson rokkara. Þar rymja þeir hvor á annan um startkafla, sveitaböll, fótbolta og annað karlmannlegt. Jakob er svo líka með myndir af Stefáni Mána að hnykla vöðvana – og brýnnar – grín um Evu Joly og annað karlmannlegt.

Í Mogga eru Staksteinar að þessu sinni ekki um Steingrím Jóhann. Hins vegar er maður búinn að gleyma um hvað dálkurinn er um leið og búið er að fletta. Öllu ánægjulegri flettingar eru á blaðsíðu 18 þar sem borgarstjórinn í Reykjavík sést tyrfa Lækjartorg með bjart bros á vör. Óskandi að þetta sé ávitull um blóm í haga á þessu hroðalega torgi – og Akureyringar ættu að taka sér þetta til fyrirmyndar og endurvekja Ráðhústorgið í fyrri mynd.

Í Lesbók er áhugaverð grein eftir Gerði Steinþórsdóttur um einn af þessum skrýtnu Englendingum sem hingað rákust og skrifuðu um það ferðabók; Watts þann sem skrifaði bókina „Norður yfir Vatnajökul“. Prýðileg grein. En er ekki kominn tími til að endurskoða smágreinastefnuna á Lesbókinni? Allt þetta smælki um plötur og  bækur og bíómyndir innan um forljótan grænan rasta sem verður einhvern veginn það eina sem maður sér…

Guðmundur Andri Thorsson

Æðrast eigandinn – dagbók flettarans 9.6.09

9. júní 2009 · Fært í Dagbók flettarans ·  

Þau tíðindi gerðust í dag í blöðunum að Björgólfur Guðmundsson fyrrum eigandi Landsbankans harmaði það sem gerst hafði…

Eflaust þykir mörgum kominn tími til að heyrist í honum. Þjóðfélagið logar enn einu sinni út af Icesave-reikningunum sem falla nú af fullu afli á þetta þjóðarkríli. Tímabært að gamli eigandinn – að ekki sé talað um soninn – tjáði sig um þau ósköp sem bankinn hefur valdið í lífi þessarar þjóðar með delluganginum í Englandi.

Það hefur hann ekki beinlínis gert. En þó varðar eftirsjá hans dellugang í Englandi. Annan. Frá því segir í mogga að hjartnæm yfirlýsing hafi birst frá honum á vef enska fótboltafélagsins West Ham. Hann kveðst yfirgefa félagið „með miklum söknuði“.

Og lofar að koma aftur.

Silfur og aftur silfur – Dagbók flettarans – 8.6.09

8. júní 2009 · Fært í Dagbók flettarans ·  

Enn eitt silfrið er á baksíðu Moggans: Gunnar Nelson mun hafa unnið silfur í jú-jútsó í Los Angeles. Það er virkilega ánægjulegt og til marks um þroska þjóðarinnar, þrátt fyrir allt. Sú var tíðin að Jóhannes á Borg var alltaf að slást við einhvern Jú-jútsó kall frá Japan. Og vann hann í öll sexhundruð skiptin sem þeir áttust við. Nú erum við hins vegar sjálf farin að leggja þessa snaggaralegu íþrótt fyrir okkur. 

Og vinnum náttúrlega silfrið.

Eins og í leiknum gegn Hollendingum. Þar unnum við silfrið eftir glæstan seinni hálfleik sem vannst 1-0. Hollendingar sigruðu að vísu fyrri hálfleikinn 2-0 en það var að sögn bara vegna þess að Eiður Smári var alltaf hafður frammi og fékk því aldrei boltann sem barst aldrei yfir miðju. 

Svavar Gestsson talar eins og við höfum unnið silfrið í Icesavemálinu. Hann er alltaf sigurviss og hress og það er virkilega ánægjulegt að sjá hann aftur. Og heyra hann – „skilurðu“ – eiginlega eitthvað traustvekjandi; og ég trúi öllu sem hann segir.

Það eru gamlir Allaballar úti um allt. Steingrímur J. náttúrlega, Álfheiður, Árni Páll og auðvitað Ólafur Ragnar. Hann er í viðtali í Mannlífi sem er vel skrifað og margt þar sagt af skynsamlegu viti eins og vænta mátti – en ég get ekki gert að því að ég fer æ oftar að undanförnu að velta fyrir mér ljósmyndunum af manninum: þær eru mér ráðgáta.

Framan á bókinni um Ólaf stóð hann til dæmis með annan fótinn í snjóskafli. Á bak við hann geysaði eitthvert framsækið orkuver en hann þarna á blankskóm með fótinn í skaflinum og maður gat ekki hætt að hugsa um það hvað hann væri eiginlega að gera ofan í þessum skafli, hvort það væri ekki óþægilegt, hvort hann væri orðinn kaldur og blautur, hvort hann myndi ekki kvefast, hvort hann væri kannski fastur…

Og nú með þessu  viðhafnarviðtali í sjálfu Mannlífi stendur hann á hinu fagra Álftanesi með kyrrlátt bros á vör og virðist halda á einhverju – eða jafnvel veifa því. Er þetta sokkur? Er þetta kannski vettlingur?

Er hann þá þessi hver sem vettlingi getur valdið?

Guðm. Andri Thorsson

Ekkert fyrir allt? – dagbók flettarans 6.-7.6.09

7. júní 2009 · Fært í Dagbók flettarans ·  

Mogginn var á laugardag með eina síðu sem helguð var Icesave samningunum og leiðara en á sunnudag var Staksteina-pistill um sama efni. Blaðið sló svolítið úr og í, var með ýmsar skoðanir en allar jafn ábúðarmiklar. Eiginlega  veit maður aldrei alveg hvaða Mogga maður er að lesa hverju sinni: Mogga Styrmis og Agnesar; Mogga Ólafs Steph – Mogga Kollu sem túlkar viðhorf hægri arms Alþýðuflokksins – Mogga Matthíasar sem stundum skýtur upp kollinum í frábærum viðtölum Péturs Blöndal – eða Mogga gömlu góðu blaðamannanna þarna á stassjóninni sem enn eru eftir og eru umfram allt góðir blaðamenn…

Umfjöllunin um Ice-save á laugardag var ágæt svo langt sem hún náði – sem var ekki ýkja langt. Ljósmynd var af Baldri Guðlaugssyni af einhverjum ástæðum eins og hann hefði haft eitthvað með þessa samninga að gera, ráðuneytisstjórinn úr Davíðshirðinni sem seldi hlutabréfin sín eftir að hafa heyrt um ástandið og er þar með úr þessari sögu; gerð var grein fyrir helstu atriðum samkomulagsins, talað við hagfræðingana raddfögru, Þórólf Matthíasson og Ólaf Ísleifsson.

Einhvern veginn vantaði einhvern bakgrunn þessara sögulegu tímamóta í þessa umfjöllun, einhvern bakfisk, í rauninni vantaði dramatískan sans í fréttina sem er sú stærsta í marga mánuði. Er þetta björgunarhringur eða hengingaról? Skuldaklafi eða lausn? Er þetta ekkert fyrir allt? Eða nýtt upphaf? Þarna hefði mátt draga fram allar kanónur í álitsgjöf.

Kannski vantar okkur skáldlegri ritstjóra. Matthías hefði skynjað tíðindin  – Hrafn Jökulsson líka og Gunnar Smári.  Leiðarinn var skrifaður djúpri röddu og spakvitringslegri að hætti hússins og var jákvæður, en Staksteinar á sunnudeginum voru að vanda helgaðir skrækum skömmum um Steingrím J.

Reykjavíkurbréfið var svo um Obama og hans stórkostlegu ræðu um Islam og Bandaríkin, prýðilegt og málefnalegt en svolítið skrifað á þennan gamalkunna hátt eins og gert sé ráð fyrir að Obama muni sjálfur lesa þetta og ígrunda efni þess með helstu ráðgjöfum sínum: „It says in the Reykjavikurbref that we must move towards a solution…“ Osfrv.

Um Icesave-samninginn bíð ég svo bara eftir Halldóri Baldurssyni teiknara – yfirleitt fær maður línuna frá honum. Hann er örugglega besti skopmyndateiknari sem þessi þjóð  mun nokkurn tímann eignast, og þar með kommentator á þjóðmálin.

Ósköp var annars fljótflett í gegnum blaðið. Þorskstofninn á uppleið og því ber að skera niður veiðar á honum, smáfréttir um allt, Vísnahornið á sínum stað og ábúðarmiklar aðsendar greinar sem maður les stundum yfir ristaða brauðinu og undrast viskuna sem liggur ónotuð úti í samfélaginu. Minningargreinarnar ómissandi sem ég treysti Óskari til að hrófla ekki við – guðsorð og nauðungaruppboð.

Ragnar Kjartansson er sagður vera að slá í gegn með verki sem mér virtist fyrst  yfirþyrmandi erindisleysa sem sýnir hve lítið ég botna í myndlist því svona var náttúrlega allt þetta 101 dæmi; menn voru að drekka og reykja  og láta mála myndir, allar eins, af sér á meðan.

Fríða Björk hefur annars staðið sig furðuvel við að halda úti Lesbókinni sem Þröstur Helgason byggði upp og gerði að stórveldi í menningarlífinu. En misgóðar voru greinarnar nú um helgina. Pláss Guðna Elíssonar sem skrifaði um fjölmiðla er átakanlega ófyllt . Að vísu á Ásgeir H. Ingólfsson nokkuð netta ábendingu um sjálfvirka frasa í umræðunni en hefur því miður orðið það á að setja þessa gráu fyrirsögn: Vandi orðræðunnar. Framlög blaðamanna í Lesbókina vitna um ósérplægni – Arnar Eggert er alltaf hress en Árni Matt rifjar upp algleymda plötu Allman-bræðra Eat a Peach til að segja okkur í all löngu máli að hún hafi ekki verið neitt sérstök. Hins vegar var grein Hólmfríðar Garðarsdóttur um Lorca afbragðs góð. Mér fannst Jón Ólafsson heldur harður við Ólaf Arnarson í dómi sínum um bók hans Fljótandi að feigðarósi;  mér fannst Ólafi takast nokkuð vel upp í sviðsetningum, t.d. á Dubai-þvælingi bankastjórans, en veikleiki bókarinnar hins vegar vera hversu einblínt er á sök Davíðs Oddssonar. Þetta minnti mig á bók sem ég las einu sinni eftir fyrrum aðdáanda Brechts, Fucci að nafni, sem komst að því að kallinn hefði verið óttalegur skítalabbi en þurfti að þrástagast á því á hverri síðu svo maður var eiginlega farinn að halda með Brecht.

Páll Baldvin var í stuði á Fréttablaðinu um helgina. Skrifaði fínan leiðara og ágætan dóm um hrun-bækurnar. Ekki er ofsögum sagt að hann ber höfuð og herðar yfir aðra ritdómara um þessar mundir.

En Fréttablaðsmenn voru þó jafnvel enn meira úti á þekju um Icesave-samningana en Mogginn; segja frá umræðum um þá eins og þeir séu að greina frá venjulegu orðaskaki í þinginu.

Klemens Ólafur Þrastarson á hins vegar frábært viðtal við Ögmund sem birtist okkur með kostum sínum og göllum – Klemens er aðgangsharður, rekur Ögmund meira að segja á gat í umræðunni um gjaldmiðil og Evrópu, sem ekki er svo sem skrýtið, og spyr hann loks hvernig vinstri maður geti verið jákvæður gagnvart gengisfellingum; fær þá heldur rýr svör.

Ögmundur hefur annars alla burði til að vera farsæll heilbrigðisráðherra, réttsýnn og heiðarlegur jafnaðarmaður og nokkuð einstrengingslegur sem hlýtur að vera kostur þegar hann fer að eiga við lúxuslæknana. Þar verður nú aldeilis hægt að spara. Og allt gott fólk á að styðja Ögmund þegar það stríð hefst.

Bakþanka laugardagsins skrifar svo Davíð Þór Jónsson, með orðfimustu og ritfærustu mönnum sem skrifa í blaðið. Niðurlagið hjá honum er dæmi um góðan stíl: eftir lotulangri setningu fullri af innskotssetningum kemur ein stutt í lokin. Þarna sýnir Davíð Þór hvernig hægt er að nota algjörlega yfirlætislausa, einfalda, stutta, nánast marflata setningu á mjög áhrifaríkan hátt. Enn er þó Bergsteinn Sigurðsson eftirlætis-pistlahöfundur minn á blaðinu. Hann hefur til dæmis skrifað hugvekju um snozzið á vekjaraklukkunni.

Svo les maður að Þorsteinn Pálsson sé að hætta á Fréttablaðinu. Er  hann ekki örugglega að fara á Líú-tíðindin – Moggann?

Guðmundur Andri Thorsson

Dagbók flettarans

4. mars 2008 · Fært í Dagbók flettarans ·  
Þetta er teikningin hennar Cassöndru Austen af Jane litlu systur.

út febrúar

Ég klippti að sjálfsögðu út drottningarviðtal Freysteins Jóhannssonar í Mogga sunnudaginn 17.2. við Þórunni Sigurðardóttur, listrænan stjórnanda Listahátíðar. Þórunn er óhrædd við að segja frá og segja sína skoðun, enda er viðtalið skemmtilegt. Þórunn hefur átt góða ævi og gegnt merkilegum störfum, en eiginlega öfundaði ég hana mest af æskuheimilinu. Lýsingin á lífi systkinanna sex, pabba lögfræðingi sem spilaði á klarinett og fiðlu og mömmu kennara minnir mest á eina af þessum idyllísku barnabókum frá fyrri hluta 20. aldar. Svo var hún í sveit á sjálfum Kvískerjum í fjögur sumur. How lucky can you get? Í lokin tekur hún fyrirfram boði um að stýra nýja Tónlistarhúsinu (Fensölum Friggjar) og ráðamenn þar gætu gert margt vitlausara en ráða hana.

Annað logandi skemmtilegt viðtal var í Fréttablaðinu sama dag þar sem Júlía Margrét Alexandersdóttir talaði við Egil Helgason og Oddnýju Sturludóttur. Til dæmis er ansi vel til fundið að spyrja þau út í frægar biðir í Íslandssögunni! Þau meta hvort annað af húmorísku réttlæti og reynast eiga margt sameiginlegt. Spurð um sparnað segist Egill kannski geta sparað með því að borða aðeins minna. Ég held að hann ætti að taka það ráð sitt alvarlega – og ekki bara peninganna vegna.

Sæbjörn Valdimarsson skrifar heilsíðukrítík um sjónvarpsseríuna Pressu á Stöð 2 í Mogga 18.2. Það finnst mér til fyrirmyndar. Íslenskt sjónvarpsefni er of sjaldan gagnrýnt af fagmennsku.

“Færeyjar þykja betri en Ísland” sagði í Mogga 19.2. Færeyjar lentu í 1. sæti af 111 bestu eyjum heims og Ísland í því 9. Ekki veit ég hvað fólk er að hugsa. Meira að segja Lófóten var fyrir ofan okkur! Hvað er þar, spyr ég nú bara. Kaffibarinn? Gullfoss? Þingvellir? Í fréttinni kemur fram að álverin draga okkur niður. Þá eigum við eftir að hrapa neðar. Svo kemur að því að enginn vill sækja okkur heim …

Velgengni Brúðgumans á erlendum bíómörkuðum er fréttaefni í Mogga 20.2. Það kemur ekki mjög á óvart; myndin er andskoti góð. Í lok spjallsins við Baltasar kemur fram að hann sé að vinna handrit að stórmynd með minnum úr Íslendingasögunum ásamt Ólafi Agli Egilssyni; hann sé uppgefinn á Njálu og ætli að búa til sína eigin sögu. Það hefur ýmsa kosti sem ég hirði ekki um að tíunda.

Ég sárfann til með Páli Ásgeiri, dómara í Gettu betur, út af fiskunum og brauðunum sem Jesús notaði til að metta fimm þúsundir og sagt var frá í Fréttablaðinu 20.2. Það er svo undraauðvelt að snúa tölunum við! Af hverju gat ekki verið jafnt af hvoru tveggja? Þetta var sérstaklega ergilegt fyrir Kvennó sem aldrei fyrr hefur komist svona langt í keppninni.

Í Lesbók 23.2. las ég smásögu Óskars Magnússonar, “Egg úr sal” sem lýsir í smáatriðum hremmingum Íslendingsins Hróbjarts Hrafkelssonar á hóteli einhvers staðar á Norðurlöndum. Soldið skondið að hann skyldi ekki stela af míníbarnum á hótelinu af því það er engin leið að ferðast með vökva nú til dags! Ég las líka nostalgíska grein Bergþóru Jónsdóttur um bókabúð Helgafells og fína umsögn Þormóðs Dagssonar um nýjustu afurð heimilismanna. Grein Soffíu Auðar um tilnefndar bækur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs renndi ég yfir. Núna þegar ég veit hver fékk verðlaunin les ég aftur umsögn Soffíu um verðlaunabókina, smásagnasafnið Bavian eftir Naju Marie Aidt og finn að mig dauðlangar að lesa hana.

“Við skulum ekki dæma” hét pistill Hallgríms Helgasonar í Fréttablaðinu 23.2. Þar telur hann upp helstu mistök íslenskra ráðamanna undanfarnar vikur sem ekki hafa haft neinar afleiðingar, en byrjar á að segja frá því að ráðherra jafnréttis- og barnamála í Noregi hafi sagt af sér vegna mistaka. Pistillinn er óborganlegur og verður að lesast í heild.

“Hafa fengið vilyrði fyrir lóð í Vatnsmýrinni” er forsíðufyrirsögn í Viðskiptablaðinu 26.2. Þá var nýbúið að kynna ítarlegar tillögur um byggð í stað flugvallar á svæðinu. Hver er að stríða hverjum?

“Íslenska landsliðið á ólympíuleika bókmennta” sagði Moggi 28.2. og undir fyrirsögninni var flott mynd af Þorgerði Katrínu með tveimur vinsælum í Þýskalandi, Halldóri Guðmundssyni og Arnaldi Indriðasyni. Það verður gaman hjá þeim sem komast á bókamessuna í Frankfurt 2011, skaði að maður skyldi ekki halda þýskunni sinni betur við …

Sama dag er í sama blaði fyrirsögnin “Misstu af tedrykkju með hr. Darcy”. Þar segir frá hópi íslenskra kvenna, aðdáenda minnar heittelskuðu Jane Austen, sem fóru sérstaka ferð á hennar slóðir í Englandi. Það hefur verið skemmtileg ferð, svo vægt sé til orða tekið. Meðal mynda með frásögninni er ein sem ég hef ítrekað reynt að amast við. Hún er sögð vera af Jane eftir Cassöndru systur hennar en er í rauninni endurunnin af síðari tíma mönnum sem fannst frummyndin ekki nógu sæt. Ég birti hér með vonda kópíu af frummyndinni til að minna á hvernig hún lítur út.

Það er óskandi að nýi Bókmenntasjóðurinn blómstri undir stjórn Njarðar Sigurjónssonar sem ber sig vel í viðtali í Mogga 29.2. Það reynir verulega á hann undir eins út af fyrrnefndri þátttöku Íslands í bókamessunni í Frankfurt 2011. Við treystum því að hann fái nóga peninga til að gera hlutina almennilega.

Sama dag talar Kolla við Ginu Winje sem er í starfi Njarðar Sigurjónssonar í Noregi. Gina nefnir norska skáldsögu sem ég er hissa á að hafa ekki heyrt um fyrr, Ut og stjele hester eftir Per Petterson. Sú bók hefur verið þýdd á rúmlega 40 tungumál og fengið IMPAC-verðlaunin. Af hverju er hún ekki til á íslensku? Gina segir líka að við getum aldrei vitað fyrirfram hvaða bækur heilla heimsbyggðina, “einmitt það gerir bókaútgáfu svo spennandi.”

Maríu Sigurðardóttur er líka óskað velfarnaðar í nýju starfi leikhússtjóra á Akureyri. Það verður ekki auðvelt að fara í fötin hans Magnúsar Geirs en konunni er heldur ekki fisjað saman. Nú gengur og gengur uppsetning hennar á Fló á skinni í húsinu þannig að hún er vel kunnug þar. Gott val.

Loks las ég mér til fróðleiks og skemmtunar úttekt Viðskiptablaðsins á hugmyndum um léttlestir í Reykjavík 29.2. Viðar Þorsteinsson blaðamaður talar m.a. við Manfred Bonz byggingaverkfræðing frá Stuttgart þar sem slíkt kerfi er rekið með feiknagóðum árangri. Mér finnst þessar hugmyndir gríðarlega spennandi…

Dagbók flettarans hálfan febrúar

22. febrúar 2008 · Fært í Dagbók flettarans, Á líðandi stund ·  
Halldór Laxness – hann er ennþá í miðju umræðunnar.

Fyrsta úrklippan er af skopteikningu Halldórs Baldurssonar í 24 stundum 2. febrúar af þrem uppgefnum en glöðum útrásargæjum með gylltar kórónur. Þeir segjast búnir að fá alveg brjálaða útrás og núna vilji þeir fá klikkaða starfslokasamninga … Þetta er sannarlega gósentíð fyrir húmorista á borð við Halldór enda gerir hann margar eftirminnilegar teikningar þessa dagana. Lesa meira

Næsta síða »