Hinn frelsandi hlátur

18. apríl 2008 · Fært í Pistlar ·  
Hinn fjölhæfi Guðjón Davíð sem Jóhannes forstjóri ásamt Tinnu Lind í hlutverki Sögu konu hans.

Við fórum ekki norður á Akureyri til að sjá Fló á skinni, héldum að við værum búin að sjá það leikrit, en allar sýningar á Dubbeldusch féllu niður um síðustu helgi vegna veikinda. Þá var eins gott að eiga innhlaup í Samkomuhúsið úr því búið var að kaupa rándýra flugmiða og harka út hótelherbergi í yfirfullum bæ. Lesa meira

Hver elskar sig sjálfan

11. apríl 2008 · Fært í Pistlar ·  
Leikhópurinn í Þeim ljóta.

Síðasta helgi var annasöm, ein af þeim þar sem framboðið er miklu meira en venjulegur menningarneytandi getur komist yfir. Meðal annars voru frumsýningar í báðum stóru leikhúsunum á laugardagskvöldið. Ljóst var að útsendari Viðskiptablaðsins kæmist ekki nema á aðra. Lesa meira

Ezra Pound og Söngvarnir frá Písa

7. apríl 2008 · Fært í Pistlar ·  

Ágæti lesandi

 

Hér á eftir verður stiklað á stóru um líf og skáldskap hins umdeilda bandaríska ljóðskálds Ezra Loomis Pound, og sérstakur gaumur gefinn að ljóðabálki hans Söngvarnir frá Písa sem nýverið kom út í íslenskri þýðingu á vegum Bókmenntafræðistofnunar Háskóla Íslands.

 

Söngvarnir frá Písa er ellefu söngva ljóðabálkur úr hinu gríðarmikla söguljóði Ezra Pounds The Cantos – verk sem losaði 824 blaðsíður og taldi 120 ljóðsöngva áður en höfundurinn stakk pennanum niður í síðasta sinn og hvarf frá stórvirki sínu, þá enn ókláruðu. Hafði ljóðið þá verið fimmtíuogfjögur ár í smíðum, frá öðrum áratug 20. aldar til þess sjöunda.

Cantos Ezra Pounds, eða Söngvarnir eins og þýða mætti ítalskt heiti verksins, er nú álitið eitt helsta þrekvirki 20. aldar ljóðagerðar. Þá eru Söngvarnir eitt gleggsta dæmi hinna nýju aðferða nútímaljóðsins sem Pound og aðrir módernistar festu í sessi á fyrstu áratugum síðustu aldar.

Pound lýsti því reyndar snemma yfir að hann sæti við að skrifa „endalaust kvæði af áður óþekktum toga.“ Og víst er að Cantos eiga ekki sinn líkan í bókmenntasögunni, hvorki fyrr né síðar, svo framsækið og óhefðbundið sem verkið er. Bókin byggir þó á þekktum epískum fyrirmyndum, svo sem á Ódysseifskviðu Hómers og hinum Guðdómlega gleðileik Dantes.

En svo sundurlaus og ruglingsleg er framvinda hinna 120 ljóðsöngva að fáir aðrir en harðsnúnustu bókmenntafræðiprófessorar hafa gefið sig verkinu á vald í gegnum tíðina. Í ljóðum sínum vísar Pound óspart til sögulegra og menningarlegra atriða nær og fjær, fyrr og síðar, og virðist láta sér fátt um finnast þótt allur sá urmull óljósra tilvísana sem verkið byggir á fari mestanpart fyrir ofan garð og neðan hjá jafnvel áhugasömustu lesendum.

Sögusvið Cantos er enda ógnarbreitt. Höfundur leitar fanga í goðsagnaheimi Grikkja og Rómverja, í siðfræðikenningum Konfúsíusar hins kínverska, í list og sögu Ítalíu á endurreisnartímabilinu, í lítt þekktri heimspeki svokallaðra ný-platónista á miðöldum, í bókmenntum og skáldskap ólíklegustu manna og tímabila, í bréfaskriftum fyrrverandi Bandaríkjaforseta sem og í hagfræðikenningum millistríðsáranna svo fátt eitt sé nefnt, allt þar til eldmóður Pounds leiddi hann á slóðir Benítós Mússólínís og kenninga hans eins og bráðlega verður vikið að.

Þá eru ótal hendingar, og jafnvel heilu söngvarnir, ortir á hinum og þessum tungumálum, allt frá tilvísunum á arabísku, forn-grísku og latínu til hinna kínversku myndleturstákna sem Pound hafði mikið dálæti á, auk fjölmargra Evrópumála.

Það skal því engan undra þótt erfitt geti reynst að fylgja Pound eftir á fluginu. Sér til halds og trausts geta lesendur þó flett upp í þverhandarþykkum skýringarlyklum að verki Pounds, sem og lesið öll þau fræðirit og doðranta sem um líf hans og skáldskap hafa verið ritaðir.

Almennt er þó talið að í Söngvunum frá Písa komist lesendur einna næst persónu Ezra Pounds, enda er bálkurinn einlægari og aðgengilegri en verk Pounds fram að þeim tíma. Písabálkinn samdi Pound í haldi Bandaríkjahers, í fangabúðum norður af borginni Písa á Ítalíu sem söngvarnir draga nafn sitt af, og helgast hinn persónulegi tónn bálksins af aðstæðum Pounds og tilfinningum innan vírnetsgirðingar fangabúðanna. Pound hafði verið ákærður fyrir landráð gegn Bandaríkjunum árið 1943 og var í stríðslok árið 1945 tekinn höndum. Ástæða landráðsákærunnar var „áróður gegn Bandaríkjunum“ – „anti-American propaganda“ – eins og það var kallað á sínum tíma.

Landráð gátu jafngilt dauðadómi eða ævilangri fangelsisvist, og það vissi Ezra Pound mætavel. Ótti og óvissa Pounds um örlög sín er því undirliggjandi í ljóðunum, en í neyð sinni og angist finnur hann athvarf frá óttanum í eigin skáldskap og skáldgáfu. Úr verður svo hið margbrotna verk sem einkennist af tíðum endurlitum og minningabrotum, af næmri náttúruskynjun, uppgjöri Pounds við fortíð sína og við sjálf Bandaríkin; af harminum yfir því sem glatast hefur og óttanum við það sem koma skal, svo fátt eitt sé nefnt. En víkjum nú að stuðningi Pounds við Mússólíní.

Ofstækisfullar stjórnmálaskoðanir Ezra Pounds í aðdraganda og á dögum heimsstyrjaldarinnar síðari birtust í æ heiftúðugri og ofstopafyllri gagnrýni hans á bandarísk yfirvöld, samfara því sem Pound tók að lofa stefnu fasistans Benítós Mússólínís í einu og öllu, jafnvel eftir að honum mátti vera fullljóst að þar færi miskunnarlaus einræðisherra sem hefði líf og réttindi manna að engu með ofbeldisfullum stjórnarháttum sínum.

Stuðningi sínum við Mússólíní kom Pound á framfæri í ræðu og riti, þar á meðal í skáldskap sínum. Þyngst vógu þó reglulegir útvarpspistlar sem Pound hóf að flytja frá Rómaborg árið 1941, en til Ítalíu fluttist Pound ásamt eiginkonu sinni Dorothy Shakespeare árið 1924. Bæði höfðu þá þráð um nokkurt skeið að búa sér fast heimili á Ítalíu eftir flæking um Evrópu undanfarin ár. Þá höfðu hagstjórnarumbætur Mússólínís einnig sannfært Pound um að þar færi „eini stjórnmálaleiðtogi Evrópu sem hefði að leiðarljósi skynsama hagstjórnarstefnu andvíga stríðsrekstri“, líkt og hann lét hafa eftir sér á sínum tíma.

En eftir því sem nær dró heimsstyrjöldinni síðari áttu byltingarkenndar hagfræðihugmyndir eftir að skipa sífellt stærri sess í hugsun og verkum Ezra Pounds. Þá urðu hatursfull skrif Pounds um hagfræðikenningar sínar helsta birtingarmynd þess ofstopa sem tók að einkenna hegðun hans á þessum árum og leiddi loks til blindrar fylgispeki við Mússólíní, með þeim afleiðingum að skáldskapur Ezra Pounds og persóna mun ævinlega brennd stuðningi hans við hatur og ofbeldisverk fasískra öfgamanna, sem Pound var fullljóst að ættu sér stað en mælti þó ekki í mót nema síður sé.

Í áðurnefndum útvarpspistlum, sem urðu 120 talsins og hófust eins og áður segir árið 1941, útlistar Pound hagfræðikenningar sínar og lofar aðferðafræði Mússólínís um leið og hann hellir sér með offorsi yfir utanríkisstefnu Bandaríkjanna, yfir þátttöku þjóðar sinnar í stríðinu og yfir Franklin Delano Roosevelt Bandaríkjaforseta. Urðu ásakanir Pounds á hendur Bandaríkjunum í þessum pistlum, auk opinbers stuðnings hans við Öxulveldin, ástæða landráðsákærunnar árið 1943.

Það stæka gyðingahatur sem gegnsýrir málflutning Pounds í útvarpserindunum má þó heita argvítugri glæpur en „anti-American propoganda.“ Í stuttu máli sagt snerust hagfræðikenningar Pounds um þá bjargföstu sannfæringu hans að okurlánastarfsemi hins kapítalíska bankakerfis hefði verið grunnorsök heimsstyrjaldanna beggja, sem og annarra styrjalda mannkynssögunnar. Eða eins og Þórbergur Þórðarson segir um peningasjúklingana við litlu manneskjuna í Sálminum um blómið, ef lesendur leyfa svo djarfa samlíkingu:

 

Þeir voru ekki að gera stríð fyrir hann Gvuð og landið sitt og allan heiminn. Þeir voru bara að gera stríð fyrir ríku mennina, til þess að þeir græddu meiri peninga og yrðu meira ríkir. Öll stríð eru gerð til þess, að þeir ríku verði meira ríkir.

 

Gyðinga taldi Pound aðalsökudólga seinni heimsstyrjaldarinnar, enda margir bankamenn af gyðingaættum. 15. maí árið 1942 fórust honum svo orð í einum pistla sinna:

 

Óvinurinn er Das Leihkapital. Óvinur ykkar er Das Leihkapital, alþjóðlegt Láns Kapítal sem stígur alls staðar niður fæti. Óvinurinn er ekki Þýskaland, óvinurinn er vaxtaheimta lánsfjár. […] Þessu Leihkapítali er stór-Júðinn svo samofinn að enginn getur greitt úr þeirri flækju. […] Maður hleypir Júðanum að og fúi hleypur í alla innviði ríkisins. […]. Og innviðir ALLRA ríkja sem stór-Júðinn skríður inn í eins og maðkur hafa grotnað niður.

 

Og í erindi Pounds frá 27. apríl árið 1943 verður okkur ljóst hvers vegna Bandaríkjastjórn gat ekki látið ræðumennsku hans óátalda öllu lengur. Var Pound ákærður fyrir landráð gegn Bandaríkjunum þremur mánuðum síðar:

         

Að mínu viti væri ekki óvitlaust að hengja Roosevelt og nokkur hundruð júða EF það verður gert samkvæmt lögum og reglu, EKKI að öðrum kosti.

 

Gyðingahatur Pounds hefur verið útskýrt, eða afsakað að sumra mati, sem afsprengi tíðarandans og/eða sem afleiðing geðrænna veikinda Pounds. En hvað svo sem geðheilbrigði Ezra Pounds líður, þá er ljóst að hann sást ekki fyrir í heiftúðugri gagnrýni sinni heldur hvarf smám saman á vit eigin ranghugmynda. Skáldskapurinn sjálfur þokaðist sömuleiðis í bakgrunninn í aðdraganda heimsstyrjaldarinnar síðari, og þar kom að hagfræðin ríkti ein í vitund helsta og áhrifamesta skálds módernismans enska. Áður en Pound tók til við ritun Söngvanna frá Písa, sem fangi Bandaríkjahers og með dauðadóm vokandi yfir sér vegna svika við föðurlandið, hafði hann ekki ort nýja söngva svo árum skipti. Öll hans orka hafði farið í ritun bæklinga og ótal greina um hagfræði og stefnu Mússólínís.

Hollusta Ezra Pounds við fasisma Mússólínís verður seint útskýrð svo vel sé, allrasíst þegar sú staðreynd er höfð í huga að Pound var, þrátt fyrir allt, friðelskandi maður sem hafði alla tíð óbeit á hvers konar ofbeldi og valdníðslu. Munum að Pound taldi Mússólíní eina stjórnmálaleiðtoga Evrópu sem andvígur væri stríðsrekstri fyrst er hann kynntist kenningum hans. Að sama skapi boðaði Pound jafnan rétt til allra manna í ljóðum sínum, deildi á kúgun og valdok yfirvalda og fordæmdi harðlega stríðsbrölt manna og þjóða í aldanna rás.

Þó er einnig víða að finna í skáldskap Ezra Pounds forkastanlega og viðurstyggilega hugmyndafræði, svo sem þórðargleði skáldsins yfir mannfalli í röðum Bandamanna á dögum heimsstyrjaldarinnar og þá ótrúlegu staðhæfingu Písabálksins að „þeir einu sem gerðu eitthvað af einhverju viti voru H., M.“, en upphafsstafirnir H. og M. standa þar fyrir Adolf Hitler og Benító Mússólíní.

Líkt og gefur að skilja varð fasismi Pounds og gyðingahatur til þess að margir stigu fram og fordæmdu harðlega skáldskap hans, sem þeir töldu að skyldi ekki undir nokkrum kringumstæðum tekinn alvarlega, hvað þá verðlaunaður, en árið 1948 hlutu Söngvarnir frá Písa hin virtu Bollingen-ljóðaverðlaun fyrst verka. Hér væri ekki annað á ferðinni en sturlunartal vitfirrts manns, sögðu margir.

Eftir því sem úlfúðina lægði smám saman í kringum Pound tók hróður hans sem mikilsvert ljóðskáld þó að aukast, enda má efast um að nokkurt ljóðskáld 20. aldar hafi átt ríkari þátt í byltingu og framgangi módernískrar ljóðlistar en Ezra Pound, bæði í krafti eigin skáldskapar sem og vegna umsvifa hans í þágu annarra. Vegur samvinna Pounds og bandaríska stórskáldsins T.S. Eliots þar þyngst, en Pound las yfir handrit Eliots að EyðilandinuThe Waste Land – og gerði á því svo stórfelldar breytingar með úrfellingum og öðrum lagfæringum að Eyðilandið er stundum sagt glæstasti skáldskapur Ezra Pounds sjálfs. Eliot tileinkaði vini sínum verkið í þakkarskyni.

Sjálfur átti Pound eftir að hverfa frá hinum öfgafullu hugmyndum sínum þegar leið á ævina, og víst er að undir lokin iðraðist hann þess að hafa gefið sig á vald hugmyndafræði sem hann uppnefndi þá „stupid, suburban prejudice of antisemitism,“ og mætti þýða sem heimskulegt gyðingahatur nesjamanns. Þá lét Pound hafa eftir sér á gamals aldri að skáldskapur sinn væri „þvættingur og fáfræði frá upphafi til enda“ vegna þeirrar hugmyndafræði sem í honum birtist.

Nú er Ezra Pound þó álitinn eitt mikilvægasta skáld módernismans og listfengasta, á köflum. Og mun þá kafla flesta að finna í Söngvunum frá Písa þar sem skáldskapur Pounds rís hæst að dómi flestra.

Þá hefur persóna Pounds smám saman fengið að njóta ríkara sannmælis. Aðrir þættir í fari hans en hið skelfilega gyðingahatur hafa verið dregnir skýrar fram, og áhersla lögð á að með skáldskap sínum vonaðist Pound einlæglega til að geta hnikað heiminum áleiðis til aukins jafnréttis og friðar. Það voru hans markmið, hvað sem aðferðunum leið. Einnig má víða lesa um þá miklu manngæsku sem vinir og samferðamenn Pounds sögðu einkenna hann. Í endurminningabók sinni, Veisla í farángrinum, hefur Ernest Hemingway til að mynda þetta að segja um Ezra Pound:

 

     Ezra var vænn í sér og kristilegri við fólk en ég. Það sem hann skrifaði, ef góði gállinn var á honum, var svo alskapað, og hann að sama skapi einlægur í mistökum sínum og ástfánginn af villum sínum, og svo vænn við fólk, að mér var tamast að líta á hann sem nokkurskonar helgan mann. Hann gat líka verið fauti og það hafa eflaust margir helgir menn verið.

 

Og um hjálpfýsi Pounds farast Hemingway svo orð í sömu bók:

  

     Ezra var allra rithöfunda örlátastur þeirra sem ég hef kynst og einn hagsmunalausastur maður. Hann hjálpaði öllum skáldum málurum myndhöggvurum og rithöfundum sem hann hafði trú á og mundi hafa hjálpað hverjum sem var öðrum, án tillits til þess hvort hann hafði trú á manninum eða ekki, aðeins ef hann vissi hann í vandræðum. Hann hafði áhyggjur af öllum og um þær mundir sem ég kyntist honum fyrst hafði hann mestar af T.S. Eliot sem, að því er hann sagði, varð að vinna í bánka í Lundúnum og hafði þannig lítinn tíma aflögu, á óþægilegum stundum sólarhrings, til að standa í           stykkinu sem skáld.

 

Það er skemmst frá því að segja að Pound kom Eliot úr bankanum og gerði hann að einu mesta skáldi aldarinnar með því að koma skáldskap hans að í tímaritum og ritstýra hans þekktasta verki, Eyðilandinu, eins og áður segir.

Pound og Hemingway tilheyrðu hinni týndu kynslóð Bandaríkjamanna og annarra listamanna í París á þriðja áratugnum. Áður hafði Pound dvalist í Lundúnum og setið þar við fótskör írska stórskáldsins Williams Butlers Yeats meðal annarra, og hrundið af stað formbyltingu módernismans í slagtogi við skáld og rithöfunda á borð við Ford Madox Ford, James Joyce og T.S. Eliot.

Í Söngvunum frá Písa lítur Pound ósjaldan um öxl til þessara ára með trega. Þá minnist höfundur Písabálksins látinna félaga sinna víða, líkt og hann gerir í eftirfarandi línum, en slík endurlit styrkja þann óræða dauðabeyg sem vokir yfir bálkinum öllum vegna hins hugsanlega dauðadóms sem höfundarins beið:

 

 

              Guðlegir menn eru jörðu gefnir

                        félagarnir þessir:

     Fordie sem skrifaði um tröll

                        William sem dreymdi um höfðingskap

     og spéfuglinn Jim sem söng:

              „Blarrney castle me darlin’

              you’re nothing now but a StOWne“

     og Plarr að þusa um stærðfræði

               eða Jepson sem unni jaðisteinum

     Maurie sem skrifaði sögulegar skáldsögur

               og Newbolt sem virtist tvílaugaður

                        eru jörðu gefnir.

               Og rann þá sól og brá skugga yfir vegu alla

                                           (74.266–72)

 

En Pound tregar fleiri en látna vini og horfin æskuár í söngvum Písabálksins. Harmur verksins beinist öðru fremur að hinni glötuðu Ítalíu eftir innrás Bandamanna, og að Mússólíní sjálfum sem Pound grætur sárt að skuli allur – og þar með draumurinn um réttlátara stjórnskipulag sem Pound trúði einlæglega að Mússólíní stæði fyrir eins og áður segir.

Söngvarnir frá Písa hefjast á opinskáu harmakveini höfundar yfir falli Ítalíu og Mússólínís. Pound hefur þó óttast að ritskoðari fangabúðanna myndi seint láta slíkt óátalið, og hélt því alfyrstu línum verksins til hliðar þar til verkið var nær fullklárað. Ekki fyrr en undir lok fangavistarinnar norður af Písa skeytti hann upphafslínum verksins framan við, en hinar tregafullu hendingar sem marka upphaf Písabálksins hafði Pound hripað niður á nokkra klósettpappírsrenninga og falið í fórum sínum.

Eftir að hafa skeytt ljóðlínum klósettpappírsrenningsins framanvið þær sem ljóðið hófst upphaflega á færist þungi alls bálksins til, og liggur nú í eftirsjánni að Mússólíní, hinu fasíska stjórnskipulagi og hinum glataða draumi Pounds um Ítalíu sem ríki efnahagslegs réttlætis þar sem okrararnir kæmust ekki upp með að skattpína hina vinnandi alþýðu.

Söngvarnir frá Písa hefjast svo:

 

Draumsins tröllaukna sorg í kotbóndans framsignu herðum

            Manes! Manes var sútaður og troðinn hálmi,

            Eins Ben og la Clara a Milano

                                                á hælunum í Mílanó

      Að maðkar skuli eta hinn fallna tarf

      DIGONOS, Δίγουος, en hinn tvíkrossfesti

                                  hvar er þess getið á spjöldum sögunnar?

      og segið þó Possum þetta: hvellur, ekki vol,

            með hvelli, ekki voli,

      Að reisa borg Dioces með verandir í litbrigðum stjarna.

  

Slíkar eru harmatölur höfundar yfir falli Ítalíu í hendur Bandamanna. Þá gerir Pound því skóna að það sé alþýða manna sem verði harðast úti eftir að Mússólíní hefur verið steypt af stóli – um það votta vonbrigðin í framsignum herðum kotbóndans. Í kjölfarið minnist Pound aftöku Mússólínís og hjákonu hans („la Clara“), sem skotin voru af hópi andspyrnumanna og skrokkar þeirra hengdir upp með kjötkrókum daginn eftir – á hælunum – til þess að almenningur gæti séð að harðstjórinn væri allur. Virðist Pound sjá líkindi með þessum örlögum Mússólínís og Manesar nokkurs (eða Mani), upphafsmanns manikeismans, en Manes var persneskur spámaður sem var tekinn af lífi á grimmilegan hátt fyrir villutrúarkenningar á ofanverðri þriðju öld. Sagðist hann vera holdtekja hins heilaga anda er Kristur hefði boðað.

Þá rímar hin tvöfalda „aftaka“ Mússólínís (sem bæði var skotinn og hengdur) við guðinn Díonýsos með öfugum formerkjum, en hið gríska viðurnefni sem Pound tilgreinir – DIGONOS – merkir „hinn tvíborni“. Slátrunin á Mússólíní, eða „the Boss“ (þýðing Pounds á „Il Duce“), kallast enn fremur á við hina táknrænu slátrun á Díonýsosi í formi nauts – bos á latínu. Vísast hefur Pound kjötkrókana sem skrokkur Mússólínís var hengdur upp með einnig í huga, og þá höfum við varpað nokkru ljósi á fimmtu línu ljóðsins: „Að maðkar skuli eta hinn fallna tarf“, þar sem maðkarnir tákna vísast skæruliðana sem urðu Mússólíní, hinu heilaga fórnarnauti, að bana.

Eftir að hafa minnst á hinn tvíkrossfesta Mússólíní vísar Pound svo til hugsanlegrar aftöku sjálfs sín þegar honum farast svo orð um endalokin: „og segið þó Possum þetta: hvellur, ekki vol, / með hvelli, ekki voli“. Um er að ræða tilvísun Pounds til hinna kunnu lokalína úr ljóði T.S. Eliots „The Hollow Men“ þar sem veröldin er sögð farast með voli, ekki hvelli. Pound telur þó líklegra að í sínu tilviki muni endalokin bera að með hvelli aftökusveitarinnar.

Tíunda og síðasta lína þess upphafs að Písabálkinum sem Pound skeytti framanvið er verkinu var nær fulllokið er loks ítrekun á drauminum um og nýtt og fegurra stjórnskipulag: „Að reisa borg Dioces með verandir í litbrigðum stjarna.“ Dioce þessi var mikilsvirtur persneskur þjóðhöfðingi sem uppi var á 6. öld fyrir Krist. Lét hann reisa borgina Ecbatana og umkringdi hana sjö sammiðja virkisveggjum í öllum „stjarnanna“ litum. Hafa sumir ritskýrenda Pounds talið „Dioce“ ríma við „Duce“, en víst er að „borg Dioces“ rímar við draum Pounds um hina réttlátu Ítalíu Mússólínís. Í ljóðsöngvunum ellefu sem á eftir fylgja er ósjaldan vikið að þeirri Ítalíu og harmað að draumurinn sé nú úti. Söngvana frá Písa má því með fullum rétti lesa sem elegíu yfir Mússólíní og falli hans, þótt ef til vill sé nærtækar að líta á bálkinn sem allsherjar harmatorrek yfir veröld sem brjálæðisgangur stríðandi afla hefur tætt í sundur enn eina ferðina. Hvort Pound sjálfur telji sig að einhverju leyti ábyrgan fyrir því er svo annað mál, og má með vísunum í Písabálkinn færa að því bæði með- og mótrök.

En nú má efast um að jafnvel góðfúsasti lesandi hafi fyllilega meðtekið samhengið í upphafslínum Písabálksins sem hér hefur verið vikið stuttlega að. Því eins og þær hendingar sýna glöggt, þá hnýtir Pound ljóðtexta sinn svo kyrfilega saman og hleður svo rækilega merkingu á merkingu ofan í krafti yfirgripsmikillar þekkingar, myrkra tilvísana, langsóttra orðaleikja, framandi tungumála og staðreynda, að oft dugar skammt að benda á heimildir Pounds og halda því næst áfram að bisa við grettistök ljóðanna sem höfundurinn hefur rutt með sér og skilið eftir. Því fæstir fá þeim lyft.

Þá eru upphafslínur Písabálksins glöggt dæmi þeirrar skáldskaparaðferðar Pounds að leiða ljóðlist sína af eldri textum. Má það reyndar heiti sérstakt einkenni á Cantos Pounds að um afleidda ljóðlist er að ræða. Höfundur leiðir hana af bókum annarra, verkum annarra, hugmyndafræði, skáldskap og tungumálum annarra – og svo mætti lengi telja. Listfengi slíks skáldskapar hlýtur því að velta talsvert á því hvort Ezra Pound hafi tileinkað sér efnivið sinn; að hann vinni ekki á yfirborðskenndan hátt úr heimildum sem gagnast málstað hans en hafa í raun takmarkað skáldskapargildi í sjálfum sér.

Og þá komum við að sérstöðu Söngvanna frá Písa í höfundarverki Ezra Pounds. Því heimildanotkun Pounds í bálkinum er með talsvert öðru sniði en í fyrri söngvum, og gegna aðstæður hans við ritun verksins þar lykilhlutverki. Bókasafn höfundar, sem í fyrri bálkum hafði nýst sem óþrjótandi uppspretta misjafnlega vel ígrundaðra og mis-einlægra tilvísana, er honum víðs fjarri innan vírnetsgirðingar Bandaríkjahers. Þær bækur sem Pound hafði aðgang að í einangrun sinni voru teljandi á fingrum annarrar handar. Biblíuna hafði hann hjá sér og rit Konfúsíusar auk kínverskrar orðabókar, nokkur hefti af tímaritinu Time sem og kristilegt söngkver sem honum var fengið í hendur líkt og öðrum föngum. Síðar áskotnaðist Pound lítið ljóðasafn enskra kvæða sem samfangi eða vörður hafði skilið eftir á kamrinum, og rata línur úr nokkrum ljóðanna með einum eða öðrum hætti inn í verkið í kjölfarið. En öðrum bókum var ekki til að dreifa.

Það gagnasafn sem Pound verður því svo gott sem alfarið að reiða sig á er hið gríðarmikla bókasafn huga hans. Hvort höfundur hafi tileinkað sér heimildir sínar og þann efnivið, sem leitað er fanga í, er því fljótsvarað þegar kemur að söngvum Písabálksins. Og raunar eru Söngvarnir frá Písa sjálfir einn gleggsti vitnisburður þess að „það sem hjartað elskar varir“ – en svo hljómar ein kunnasta hending Písabálksins, og má hún jafnvel heita niðurstaða verksins. Á sama stað brýstur á með eftirfarandi reiðilestri þar sem Söngvarnir frá Písa ná hámarki. Við nálgumst lokapunkt verksins, og nú fær lesandi þess að heyra hverjar dýpstu sannfæringar skáldsins eru:

 

     Lát af þinni auvirðu, maðurinn skóp

     Né kjark, né reglu, né dýrð að heldur,

           Lát af þinni auvirðu, lát af segi ég.

     Leitaðu staðar þíns á grænum völlum

     Innum gulltöflur listar þinnar,

     Lát af þinni auvirðu,

                                  Lát af, Paquin!

     Hjálmurinn græni slær þokka þínum við.

 

     „Sértu sjálfum þér kunnur munu aðrir þig umbera“

           Lát af þinni auvirðu

     Þú ert kvalið hundspott í élsins kófi

     Útbelgdur skjór undir grimmri sól,

     Hvítur og svartur til hálfs

     Né veistu mun vængjar og stéls

     Lát af þinni auvirðu

                        Heift þín svo lítilsigld

     Fóstruð af falsindum,

                        Lát af þinni auvirðu,

     Svo fús til að mölva, tregur til örlætis,

     Lát af þinni auvirðu,

                        Lát af, segi ég.

 

     En að hafa gert í stað þess að láta ógert

                        það er ekki auvirða

     Að hafa knúið, með kurt og pí, dyra

     Að Blunt einn skuli ljúka þeim upp

                        Að hafa dregið úr loftinu lifandi hefð

     eða úr öldnu auga hið ósigraða ljós

     Það er ekki auvirða.

           Hér felst misgjörðin í því að láta ógert,

     í kjarkinum sem brást …

                                           (81.145–174)

 

 

Hvort Pound beini reiðilestri þessara lína að sjálfum sér og gangist þar með við sorglegri drambsemi sinni og auvirðulegum málflutningi og hugmyndafræði, eða hvort lesturinn beinist þvert á móti út á við, að þeirri spilltu manngerð og samfélagsgerð sem getur af sér stríð og óréttlæti, er hins vegar þrætuepli fræðimanna og annarra lesenda Pounds enn í dag. Ef til vill er kaflinn eina dæmi Písabálksins um vísvitandi tvíræðni höfundar, sem aldrei þessu vant slær hér engu föstu.

Allrasíðustu hendingar Písabálksins enduróma svo þá pólitík sem gegnumsýrir allt verkið. Pound gleðst yfir því að enska þjóðin skuli hafa fellt Winston Churchill í kosningum, en á Churchill hafði Pound megnustu óbeit vegna hagfræðistefnu hans. Þá vitnar höfundur í samtal sitt við ítalska sveitastúlku sem hann ávarpar yfir vírnetsgirðingu fangabúðanna. Stúlkan segir að Bandaríkjamennirnir, sem nú fara með völd á svæðinu, séu lítið skárri en Þjóðverjarnir sem voru þar fyrir.

 

                              Míka sagði:

                                                      Hver í nafni síns…

    Svo við það að sjá bryndrekann spúa reyk og frussa út úr sér

                  flötu viskí

                              (á leið sinni út)

      sagði Kumrad Koba:

                  Ég mun taka mark á Amríkananum.

                                                                  Berlín, 1945

      það síðasta sem sást til Winstons forsrh. á þeim vettvangi

                  e poi io dissi alla sorella

      della pastorella dei suini:

      e questi americani?

                  si conducono bene?

      ed ella: poco.

                  Poco, poco.

      ed io: peggio dei tedeschi?

                  ed ella: uguale, í gegnum vírnetið

                                                      það verður, sagði Stef (Lincoln Steffens)

      engu tauti við byltingarseggi komið

               fyrr en þeir hafa rasað alminlega út

      og að Vandenberg hafi lesið Stalín, eða Stalín John Adams

      það er, vægast sagt, ósannað.

 

      Sé tjald þitt slegið frosti og fári

      Munt þú fagna morgunsári.

                                                      (84.96–119)

 

Skömmu eftir að Pound lauk verki sínu í fangabúðum Bandaríkjahers var flogið með hann vestur til Washington þar sem réttað var í máli hans. Komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að sakborningurinn væri vanheill á geði, „of unsound mind“, og þar af leiðandi ósakhæfur. Í kjölfarið var Pound vistaður á St. Elizabeths geðsjúkrahúsinu í Washington sem ósakhæfur glæpamaður og sjúklingur, og dvaldi hann þar næstu þrettán árin, fram til ársins 1958. Pound svaraði því aldrei beinlínis til saka fyrir brot sín, en landráð gátu jafngilt dauðadómi eða ævilangri fangelsisvist eins og áður segir. Ezra Pound lést árið 1972, áttatíu og sjö ára að aldri.

 

* * *

 

Ágæti lesandi. Hér hefur í stuttu og ófullkomnu máli verið rætt um eitt áhugaverðasta ljóðskáld 20. aldar í tilefni þess að ljóðabálkur hans Söngvarnir frá Písa hefur nú verið þýddur á íslensku. Gríðarlega margt er þó ósagt um það mótsagnakennda og umdeilda ljóðskáld sem Ezra Pound var alla tíð, og er ef til vill enn. Áhugasömum er því bent á prýðisgóða bók Humphrey Carpenters um ævi Pounds, A Serious Character, sem og hinn áhrifamikla doðrant Hugh Kenners um líf og skáldskap Pounds og annarra samtímamanna hans, The Pound Era.

Magnús Sigurðsson

Magnús þýddi og gaf út Söngvana frá Písa hjá Háskólaútgáfunni sl. haust.

Framandi heimar og kunnuglegir

5. apríl 2008 · Fært í Pistlar ·  
Sólveig Arnarsdóttir í hlutverki Nadezdu.

Nokkuð var gert úr því í kynningum á Engisprettum eftir serbneska leikskáldið Biljönu Srbljanović, sem Þjóðleikhúsið sýnir, að verkið gæti virkað framandi á íslenska áhorfendur. Sviðsmynd Vytautas Narbutas ýtti undir þetta, þröng búr hlið við hlið á hringsviðinu, hlaðin sérkennilegu dóti með miðevrópsku yfirbragði. En viðfangsefnin eru ekki ný. Hér er meðal annars fjallað um kynslóðabil í nýjum veruleika, óþol yngra fólks gagnvart því gamla, ásókn í skyndigróða og þrá eftir réttmætri viðurkenningu gagnstætt gervifrægð. Lesa meira

Kaldir páskar í París

28. mars 2008 · Fært í Pistlar ·  

Það var skítkalt í París um páskana. Þúsundir innlendra og erlendra gesta örkuðu samanherptir um frægar götur, vafðir í trefla og varðir úlpum, ullarjökkum og leðurfrökkum. Þegar haglið eða regnið dundi á þá stukku þeir inn á næsta kaffihús sem blessunarlega er aldrei langt undan í þeirri borg, og þar er ekki í kot vísað. Lesa meira

Hvað má til huggunar verða?

19. mars 2008 · Fært í Pistlar ·  

Sigurður Guðmundsson er ekki aðeins skemmtilegur myndlistarmaður heldur líka tilfinningaríkur og heimspekilegur. Ljósmyndirnar hans sem nú hanga uppi í Hafnarhúsi eru margar eins og myndagátur þótt algerlega skýrt sé hvað á þeim er. Mér varð sérstaklega starsýnt á myndina Fimm karlar og egg þar sem fimm Bakkabræður góna á sjálflýsandi egg. Um hana má segja langa sögu! Lesa meira

Að elska gullfisk

14. mars 2008 · Fært í Pistlar ·  

Erna Ómarsdóttir dansari líkist engu öðru í heimsmynd minni. Sú vissa styrktist enn á sýningu hennar The Talking Tree (Tréð sem talar) í Tjarnarbíó á Lókal leiklistarhátíðinni á sunnudagskvöldið. Lesa meira

Listakonur í öndvegi

9. mars 2008 · Fært í Pistlar ·  

Ég kom á Streymi í Listasafni Íslands beint frá Mynd ársins í Gerðarsafni, mettuð af ljósmyndum af öllu tagi, og hreifst líklega þess vegna ekki eins af verkum Emmanuelle Antille og ella. Guðný Rósa Ingimarsdóttir kom mér þægilega á óvart; myndirnar hennar eru margræðar og heillandi, hver þeirra nýtir allan þann tíma sem hún fær frá gestinum og togar huga hans í allar áttir. Göldróttust allra er þó Gabríela Friðriksdóttir sem ævinlega hrærir upp í manni. Lesa meira

Söngur, leikur og dans

29. febrúar 2008 · Fært í Pistlar ·  

Ég fór aftur að sjá La traviata í Óperunni til að gá hvernig Hulda Björk Garðarsdóttir túlkaði Víólettu. Sigrún Pálmadóttir er svo kúl að maður getur vel ímyndað sér hana sem fylgikonu auðjöfra, en síður í niðurlægingunni í lokin. Hulda Björk átti samúð manns alla leið og vatt tilfinningarnar harkalega á endasprettinum. Þetta er dýrleg sýning, hvor sem er aðal. Lesa meira

Íslensk alþýða þá – og nú?

22. febrúar 2008 · Fært í Pistlar ·  

Listneyslan var svo massíf um síðustu helgi að mér finnst eiginlega að ég hafi verið í útlöndum. Á föstudagskvöldið var Sólarferð frumsýnd í Þjóðleikhúsinu, þetta einkennilega verk Guðmundar Steinssonar sem mér þótti í gamla daga opinbera óþol hans gagnvart manneskjunum en sé núna að sýnir ást hans og samúð með þeim, leitandi í örvæntingu að hamingju í sólskini á framandi strönd. Lesa meira

« Fyrri síðaNæsta síða »