TMM 4.11

9. janúar 2012 · Fært í Fréttir ·  

TMM_4_2011_kápaÍ fjórða og síðasta hefti ársins 2011 af Tímariti Máls og menningar eru áberandi greinar um umhverfismál. Guðmundur Páll Ólafsson náttúrufræðingur og rithöfundur og einn af helstu leiðtogum umhverfisverndarsinna hér á landi birtir erindi sem hann flutti á Umhverfisþingi 2011, Lífið er félagsskapur en Guðni Elísson prófessor við Háskóla Íslands skrifar ádrepu um válegt ástand loftslagsmála í heiminum og setur í það samhengi við væntanleg áform um olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Lesa meira

Bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins

9. desember 2011 · Fært í Fréttir ·  

Bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins voru veitt í Brussel í þriðja sinn 28. nóvember síðastliðinn. Þá hlutu verðlaun höfundar frá tólf Evrópulöndum en áður höfðu höfundar frá 23 löndum hlotið verðlaunin, tólf árið 2009 og ellefu árið 2010. Ísland var í síðasta hópnum og tók Ófeigur Sigurðsson við verðlaununum fyrir Skáldsögu um Jón sem kom út hjá Máli og menningu í fyrra. Á næsta ári hefst þessi þriggja ára „hringur“ aftur en ekki er vitað hvort löndunum verður raðað eins í næstu umferð. Lesa meira

Nýtt TMM

25. febrúar 2011 · Fært í Fréttir, Óflokkað ·  

Út er komið fyrsta hefti ársins af tmm og kennir þar ýmissa grasa. Stærsta greinin er eftir Þorstein Þorsteinsson bókmenntafræðing og þýðanda og fjallar um Tímann og vatnið. Þarna gengur íslenskur ljóðrýnir loksins á hólm við þennan sögufrægasta ljóðaflokk 20. aldar og reynir að lesa hann eins vel og honum er unnt. Tímamótagrein.

Haukur Ingvarsson tekur stórt viðtal við Ófeig Sigurðsson sem vakti mikla athygli nú fyrir síðustu jól með skáldsögu sinni um Jón Steingrímsson og Tómas R. Einarsson skrifar um kúbanska skáldið Ernesto Padilla sem sætti ofsóknum kommúnistastjórnarinnar fyrir ljóð sín á sjöunda áratugnum.

Guðni Th. Jóhannesson veltir fyrir sér heimildum sagnfræðinnar í ýmsum skilningi – þ.e.a.s. hversu langt sagnfræðingnum er heimilt að ganga, hvernig hann á að umgangast heimildir sínar, hvað má birta og hvað má liggja. Önnur sagnfræðileg álitamál eru á ferð í grein Kjartans Ólafssonar fyrrverandi ritstjóra um nýjustu bók Þórs Whitehead og meintan vopnaburð kommúnista.

Hjörleifur Stefánsson fjallar um ýmis álitamál kringum íslenska torfbæinn en Ólafur Páll Jónsson heimspekingur tekur upp hanskann fyrir sumt í íslenskri umræðumenningu en gagnrýnir þó það sem hann nefndir „sæmdarþorsta“ Íslendinga.

Silja Aðalsteinsdóttir gerir upp síðasta leikár, ljóð eru eftir  Anton Helga Jónsson, Þórunni Valdimarsdóttur, Kristján Þórð Hrafnsson og Hallgrím Helgason og ritdóma skrifa þau Soffía Auður Birgisdóttir og Guðbjörn Sigurmundsson.

Fjórða hefti 2010 komið út

26. nóvember 2010 · Fært í Fréttir ·  

TMM_4_2010_Front_webKomið er nýtt hefti af Tímariti Máls og menningar.

Ólafur Jóhann Ólafsson birtir þrjú ljóð innblásin af dvöl í Flatey á Breiðafirði en þess má geta að hann kvaddi sér fyrst hljóðs í íslenskum bókmenntum á síðum tmm með þremur ljóðum árið 1978, sextán ára gamall.

Kristín Svava Tómasdóttir birtir nafnlaust ljóð en hún vakti mikla athygli ljóðaunnenda fyrir nokkrum árum með bók sinni Blótgælur, Sigurður Ingólfsson yrkir hækur um blómavasa sem Steinunn Sigurðardóttir skáldkona bað hann að geyma fyrir sig og Vésteinn Lúðvíksson yrkir um „bara ósköp venjulegt fjall“ – Esjuna.

Greinar um þjóðfélagsmál eru áberandi að þessu sinni í tímaritinu. Pétur Gunnarsson flutti á afmælisdegi Sigurðar Nordals fyrirlestur kenndan við hann og ber heitið „Ef ég gæti ekki elskað þessa þjóð“. Haukur Már Helgason heimspekingur og skáld beitir meðal annars tækjum sálgreiningar til að glöggva sig á ýmsum þverbrestum í sjálfsmynd íslensku þjóðarinnar í greininni „Að vera eyland“. Guðni Elísson beinir spjótum að nýfrjálshyggju í beittri grein sem heitir „Þegar vissan ein er eftir“ en Ásgeir Friðgeirsson notar reynslu sína sem innanbúðarmaður í bankakerfinu á útrásarárunum, ráðgjafi og talsmaður Björgólfsfeðga – og sem blaðamaður og ritstjóri áður – í forvitnilegri grein sem hefur að geyma greinargott yfirlit um það sem olli hruninu og umræðuna sem farið hefur fram um það. Gunnar Karlsson prófessor tekur svo upp hanskann fyrir fulltrúalýðræði í ádrepu.

Hrafn Jökulsson tvinnar saman söng Emiliönu Torrini, leigusala í rauðum slopp í húsi við Laugaveg, gamalli úrklippubók og örlögum samferðafólks í magnaðri frásögn; Heimir Pálsson skrifar af fræðilegu fjöri um Gunnlaðar sögu og Eddukvæði og Jón Yngvi Jóhannsson skrifar yfirlit um skáldsögur ársins 2009.

Ritdómar eru eftir Úlfhildi Dagsdóttur, Silju Aðalsteinsdóttur, Árna Bergmann, Úlfar Bragason, Magnús Sigurðsson og Inga Björn Guðnason.

Greinar um

Nýtt tímarit á leiðinni

3. september 2010 · Fært í Fréttir ·  

Þriðja hefti TMM á árinu er væntanlegt innan skamms.

Hannes Pétursson skáld skrifar greinina Íshjarta þar sem hann rýnir í ljóð Einars Benediktssonar Bláskógarvegur, en slík grein er fagnaðarefni fjölmörgum aðdáendum skáldsins – og bókmenntafræðingsins – Hannesar Péturssonar.
Annað skáld um skáld er bráðskemmtileg grein Sigurðar Pálssonar um Sigfús Daðason þar sem hann tengir hann við margvíslega aðra mauvais caractères.

Parísarandi svífur líka yfir vötnum í grein Laufeyjar Helgadóttur um Erró og collage-verk hans sem nýlega voru kynnt á mikilli sýningu í Pompidou-safninu í París.

Þau Silja Traustadóttir og Pétur Ármannsson skrifa um Fritz Höger og Skriðuklaustur sem hann teiknaði, en sú saga hefur verið lífseig að sá arkitekt hafi teiknað Arnarhreiðrið svokallaða fyrir Hitler. Þeim spurningum er öllum svarað í grein þeirra Silju og Péturs og rakin skipti þeirra Gunnars og Fritz kringum þessa stórhuga húsbyggingu.

Einar Már Guðmundsson skrifar af fjöri og andríki um John Cleese, Kaupþing og Eyjafjallajökul (og Icesave og ESB) en Valur Gunnarsson spyr áleitinna spurninga um ábyrgð íslensku þjóðarinnar sjálfrar á Hruninu.

Jón Sigurðsson snýr aftur í grein Gunnars Þórs Bjarnasonar þar sem við kynnumst margvíslegum ásjónum þessa sóma Íslands, sverðs og skjaldar í stjórnmálaumræðu seinni tíma.

Annar þjóðmæringur var Sturla Þórðarson sem Einar Kárason rifjar upp margvísleg rök fyrir að hafi verið höfundur Njálu, og bætir sjálfur við nokkrum.

Rúnar Helgi Vignisson ritar tímabæra og snjalla ádrepu um uppeldi barna – og foreldra – í íþróttahreyfingunni undir lýsandi titli, Stríð í stuttbuxum en Orri Vésteinsson vekur athygli á ýmsum brotalömum í umgengni okkar við fornleifar.

Bragi Þorgrímur Ólafsson bregður upp skemmtilegri svipmynd af háskólasamfélagi í mótun í grein um doktorsvörn við HÍ árið 1938.

Sigríður Halldórsdóttir skrifar bráðfyndinn spuna út frá umdeildum Flugleiðaauglýsingum en sögur í heftinu eru eftir Hermann Stefánsson og Jorge Luis Borges. Ljóð eru eftir Matthías Johannessen og Svein Einarsson og fleiri en meðal ritdóma má nefna að Dagný Kristjánsdóttir skrifar um Karlsvagninn, Svanhildur Óskarsdóttir skrifar um Óvíð og Kristján Árnason, Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir skrifar um ljóð Ísaks Harðarsonar og Ingibjörg Eyþórsdóttir skrifar um Jón Leifs og bók Árna Heimis um hann.

Nýtt TMM á leiðinni

5. nóvember 2009 · Fært í Fréttir ·  

Nýtt hefti TMM er á leið í prentsmiðju – stútfullt af efni.

Meðal annars má nefna skarpa grein eftir Guðna Elísson bókmenntafræðing um Staðleysuna Ísland og mýtuna um okkur sjálf; grein eftir Jón Ólafsson prófessor á Bifröst um þann samfélagssáttmála sem hér varð til í góðærinu; brot úr dagbókum Matthíasar Johannessen frá árunum 1999 og 2000 sem eflaust eiga eftir að vekja mikla athygli… Þorsteinn Antonsson hefur legið í eftilátnum fórum Elíasar Marar rithöfundar og orðið margs áskynja: meðal annars fundið merkileg bréf milli Elíasar og Ragnars í Smára þar sem höfundurinn og útgefandi hans skiptast á beisklegum athugasemdum.

Í heftinu eru ljóð eftir Hermann Stefánsson, Hallgrím Helgason og Jeramy Dodds í þýðingu Emils Hjörvars Petersen en Jeramy Dodds kom hingað á bókmenntahátíð fyrir nokkru, eitt Griffin-skáldanna; þarna eru smásögur eftir Kristínu Eiríksdóttur sem kunn er þegar af ljóðum sínum og Jóhann Þórsson sem ekki hefur áður birt eftir sig opinberlega sögur.

Dómar eru margir um bækur liðins árs – meðal annars einn afar langur og vandaður eftir Björn Þór Vilhjálmsson um Vetrarsól Auðar Jónsdóttur og afar harðorður dómur eftir Aðalstein Ingólfsson listfræðing um Icelandic Art Today og bók um Ragnar Kjartansson og framlag hans á Feneyja-bíennalnum.

Nýtt TMM

3. september 2009 · Fært í Fréttir, Óflokkað ·  

Út er komið nýtt tölublað af Tímariti Máls og menningar sem að þessu sinni er að mestu helgað Bókmenntahátíð í Reykjavík. Hátíðin stendur yfir dagana 6. -12. september og von á fjölmörgum góðum gestum af því tilefni.

Heftið er afar gott undirbúningsrit fyrir þá sem vilja kynna sér ýmsa af erlendum höfundum hátíðarinnar en í því er fjallað um:

- Kader Abdolah
- Naja Marie Aidt
- Tariq Ali
- Jesse Ball
- Junot Díaz
- Gintaras Grajauskas
- Johan Harstad
- Benn Q. Holm
- Luis López Nieves
- Sofi Oksanen
- Anne B. Ragde
- David Sedaris
- Ngugi Wa Thiong’o

Í ritinu má einnig finna hugleiðingu eftir Salvöru Nordal um að Íslendingar taki að sníða sér stakk eftir vexti og Tryggva Gíslason um myndir sem til eru af Jónasi Hallgrímssyni; Hjalti Hugason les Íslandsklukkuna í kreppunni en Sigurjón Árni Eyjólfsson guðfræðingur og prestur skrifar rækilega um táknheiminn sem liggur bókum Bjarna Bjarnasonar til grundvallar. Páll Valsson ritar dóm um Amtmanninn á Einbúasetrinu eftir Kristmund Bjarnason, ljóð birta Vésteinn Lúðvíksson, Birgir Sigurðsson, Kristján Þórður Hrafnsson, Sveinbjörn I. Baldvinsson og Sverrir Norland og ný smásaga er eftir eftir Guðmund Brynjólfsson. Ádrepu ritsins skrifar Ármann Jakobsson sem bregst við hugleiðingum Gunnars Karlssonar í TMM 2:09 um skáldsögu hans Vonarstræti. Áskriftarsími er 5755600 en netfangið tmm@forlagid.is.

Valinkunnir listamenn styðja Steinunni

22. júní 2009 · Fært í Fréttir ·  

Hópur þekktra listamanna hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem lýst er stuðningi við þá ákvörðun að gera Steinunni Sigurðardóttur að borgarlistamanni árið 2009. Lesa meira

Nýtt Tímarit á leiðinni

4. júní 2009 · Fært í Fréttir, Óflokkað ·  

tmm_2_2009_web

Annað hefti TMM á árinu er í prentsmiðju og væntanlegt næstu daga.

Þar kennir ýmissa grasa. Má nefna klassíska grein eftir Thoreau um borgaralega óhlýðni og hugleiðingu eftir Pál Skúlason prófessor um það hvernig þjóðfélag við viljum. Úlfhildur Dagsdóttir gerir grein fyrir þýddum fantasíum og Gunnar Karlsson skrifar grein um Uppkastið svokallaða frá árinu 1908, en Ármann Jakobsson lét einmitt skáldsöguna Vonarstræti  hverfast um þá atburði

Ljóð eru eftir góðskáld á borð við Lindu Vilhjálmsdóttur, Anton Helga Jónsson, Þorstein Antonsson og Eirík Örn og svo er löng, ný og mögnuð saga eftir Steinar Braga.

Ritdómar um jólabækur eru eftir Guðrúnu Nordal, Atla Bollason, Björn Þór Vilhjálmsson, Árna Óskarsson og Svein Einarsson…

Leikhúsveisla í Borgó

4. júní 2009 · Fært í Fréttir ·  

tvær frumsýningar um helgina

Um helgina verða tvær frumsýningar í Borgarleikhúsinu. Á föstudagskvöld frumsýnir Jón Atli Jónasson einleik sinn Djúpið undir eigin leikstjórn á Litla sviðinu. Á laugardagskvöldið frumsýnir Nýja Ísland ærslaleikinn Við borgum ekki, við borgum ekki eftir Dario Fo á Nýja sviðinu.

Djúpið: Bátur heldur úr höfn rétt fyrir dögun. Menn ýmist fleygja sér í koju eða halda sér vakandi á sígarettum, kaffi og veltingi. Enginn hefur minnsta grun um hvað er í vændum. Hér er komið nýtt, íslenskt verk sem leikhús um alla Evrópu eru nú í óða önn að tryggja sér sýningarréttinn á. Djúpið er frásögn úr íslenskum veruleika sem lætur engan ósnortinn. Þetta er óður til allra þeirra fjölmörgu, íslensku sjómanna sem í gegnum aldirnar hafa haldið á djúpið.

Verkið var heimsfrumsýnt í Oran Mor leikhúsinu í Glasgow í apríl síðastliðnum og var einn þekktasti leikari Skotlands, Liam Brennan,í aðalhlutverkinu. Viðtökur gagnrýnenda voru frábærar en Djúpið fékk fjórar stjörnur í The Scotsman. Í Borgarleikhúsinu er það stórleikarinn Ingvar E. Sigurðsson sem fer með aðalhlutverkið, en verkið var skrifað með hann í huga. Jón Atli Jónasson, höfundur verksins, þreytit hér frumraun sína sem leikstjóri.

Við borgum ekki, við borgum ekki: Þegar matarverð hækkar upp úr öllu valdi taka konurnar málin og matinn í sínar hendur. Þegar löggan kemst á sporið hverfa vörurnar og „óléttar“ konur fylla göturnar. Þegar sérsveitarmaður reynir að fletta ofan af hinni dularfullu frjósemi verður hann sjálfur óléttur.

Hér er á ferðinni splunkuný útgáfa af þessum frábæra gamanleik sem hefur verið færður til Íslands í dag í þýðingu Möggu Matt og staðfærslu hópsins. Þröstur Leó Gunnarsson leikstýrir.

« Fyrri síðaNæsta síða »