Að tala eins og nýlendubúi – Úr Andrahaus

29. október 2009 · Fært í Úr Andrahaus ·  

„Í skarðslöndum fyrir vestan er eya ein, sem Hólaey heitir. Norður úr henni geingur höfði einn, hálfklipinn frá eynni, og heitir hann Andrahaus. Hausinn er nokkuð víðlendur ofan og grasi vaxinn mjög, og það því fremur sem á honum hefur verið sú trú, að ekki mætti slá hann.“ Þjóðsögur Jóns Árnasonar I, bls. 481


Eftir Guðmund Andra Thorsson


Maður blygðaðist sín þegar Bjarni Benediktsson kom upp á Norðurlandaþingi og skammaði Norðurlandaþjóðirnar (aðrar en Færeyinga) fyrir að „hafa ekki rétt Íslendingum hjálparhönd.“

Hann talaði eins og Íslendingar hefðu „orðið fyrir“ og „lent í“ – væru fórnarlömb óviðráðanlegra hamfara; fyrir utan náttúrlega þá svívirðilegu árás Breta og Hollendinga að ætlast til þess að þjóðin standi við þær skuldbindingar sem ráðamenn hennar hafa undirgengist vegna íslenskrar bankastarfsemi þar í löndum.

Hann talaði eins og Íslendingar ættu sjálfkrafa heimtingu á ótakmörkuðum aðgangi að féhirslum annarra þjóða og átaldi þær fyrir að binda þann aðgang einhverjum skilyrðum – til dæmis þeim skilyrðum að þjóðin standi við skuldbindingar sínar.

Hann talaði eins og allt hefði verið með felldu um framgöngu Íslendinga í viðskiptum á árunum upp úr aldamótum.

Hann talaði eins og Íslendingar væru andlagið í eigin sögu, ekki frumlagið.

* * *

Óraunsæið um stöðu Íslendinga er algert. Formanni Sjálfstæðisflokksins er fyrirmunað að horfast í augu við að aðrar þjóðir treysta Íslendingum ekki fyrir fé. Þær vilja ekki lána Íslendingum fé vegna þess að þær halda að Íslendingar eyði því strax. Í að kaupa Tívólí eða Sívala Turninn. Eða Holmenkollen. Eða IKEA. Eða ABBA – eða hvað það nú er sem þessar þjóðir eiga. Og náttúrlega alla Range Roverana.

Í augum nágrannaþjóðanna eru Íslendingar þjóð sem myndi undireins sóa nýfengnu lánsfé í vitleysu. Hít. Þær líta svo á að einhverjir ábyrgir aðilar verði að hafa hönd í bagga með Íslendingum og hvernig þeir verji þessu fé.

Þessar þjóðir hafa verið í stúkusæti að fylgjast með íslenska efnahagsundrinu. Í forundran.

Vantrú þessara þjóða á ráðdeild Íslendinga er vakin af sýnilegum skorti á slíkum eiginleika hér á landi, mestanpart. Hún vaknar þegar sérfræðingar þessara þjóða rýna í tölur um neyslu Íslendinga á lánsárunum miklu – sem nefnt hefur verið góðæri; en eins og kunnugt er ríkti hér á landi slík trú á gildi skuldsetningar að 12 ára börn voru látin taka milljónalán til hlutabréfakaupa.

Vantrú Skandínava á fjármálaviti Íslendinga er vakin af því  hvernig íslenskir menn hegðuðu sér á þessum árum í nákvæmlega þeim löndum sem formaður Sjálfstæðisflokksins heimtar nú að standi straum af áframhaldandi íslensku efnahagsundri.

Umsvif Íslendinga eru þessum þjóðum í fersku minni. Hinir svonefndu íslensku bankar höfðu af hyggjuviti sínu búið til nokkurs konar eilífðarpeningavél og létu eins og það væri til marks um skandínavísk leiðindi og skort á fantasíu að vita aura sinna tal. Ekkert í heiminum þótti Íslendingum hlægilegra en skandínavískt viðskiptavit.

Íslendingar tóku sér fyrir hendur að kenna Kaupmannahafnarbúum kaupmennsku og óðu um danskt þjóðlíf eins og Vandalar um fallna Róm, og þarf ekki að rekja þá neyðarlegu sögu frekar; allir muna eftir því hvernig íslenskir menn keyptu þar gömul héraðsflugfélög og seldu sjálfum sér átjánhundruð sinnum til að sýna yfirburði hins íslenska viðskiptavits – þeir menn ganga víst enn allir lausir sem í því stóðu; og fer ekki framhjá frændum okkar. Dellan var kannski ekki jafn gagnger á hinum Norðurlöndunum: þó keyptu íslenskir „bankar“ banka í Svíþjóð og Noregi, og stóðu þar væntanlega í ýmsum frumlegum viðskiptum, tóku ákvarðanir sínar hratt og fumlaust, öfugt við hina búralegu  og varfærnu Skandínava.

Sem óttast nú einmitt hinar fumlausu og hröðu ákvarðanir Íslendinga - því þær voru ævinlega rangar.

* * *

Það fór sem sé eins og það fór með það. Og nú eiga Skandínavar að greiða fyrir þessar flugeldasýningar. Formaður stærsta stjórnmálaflokks Íslands heimtar með þjósti að þessar þjóðir opni nú fjárhirslur sínar snarlega því Íslendingar hafi „orðið fyrir“ og „lent í“.

Með framgöngu sinni – sem er einmitt hröð og fumlaus – kemur Bjarni Benediktsson fram eins og nýlendubúi. Hann staðfestir alla þá fordóma sem maður hefur stundum orðið var við meðal gömlu herraþjóðarinnar þar sem gamalt fólk var stundum að segja við mann hér á árunum áður að Íslendingar hefðu aldrei átt að segja skilið við danska heimsveldið. Á stórdani virkar svona framkoma eins og hjá hinum fullkomlega óábyrga nýlendubúa sem kann ekki fótum sínum forráð, er búinn að klúðra öllum málum hjá sér og kemur svo gargandi og heimtar að vera bjargað úr eigin ógöngum; heimtar það sem er sárast og verst að láta af hendi: peninga.

„Alls hins stolna aftur vér krefjumst“ – Úr Andrahaus

24. október 2009 · Fært í Úr Andrahaus ·  

„Í skarðslöndum fyrir vestan er eya ein, sem Hólaey heitir. Norður úr henni geingur höfði einn, hálfklipinn frá eynni, og heitir hann Andrahaus. Hausinn er nokkuð víðlendur ofan og grasi vaxinn mjög, og það því fremur sem á honum hefur verið sú trú, að ekki mætti slá hann.“Þjóðsögur Jóns Árnasonar I, bls. 481


Eftir Guðmund Andra Thorsson


Hannes Hólmsteinn Gissurarson hefur um árabil verið ötulasti talsmaður þess að byggja ranglátt þjóðfélag. Við súpum nú seyðið af því að til valda komust menn sem trúðu einmitt honum og auðræðishugsjón hans; þeirri kenningu að afnema ætti fjármálaeftirlit, reglugerðir, skatta (nema á venjulegt launafólk): hin ósýnilega hönd markaðarins myndi ævinlega stýra peningunum í réttar hendur; auðurinn hefði alltaf rétt fyrir sér, sjálfkrafa.

Í stað þess að stara í gaupnir sér vegna þess hvert þessi nauðhyggju-auðhyggja leiddi, og láta sálu sína þenkja um sína stóru villu skrifar Hannes baki brotnu. Hann beinir mjög sjónum austur á Volgubakka, þegar Stalín ríkti þar, en slíkt samfélag telur hann eina valkostinn við auðræðið sem þeir aðhyllast, hann og þessir fáu félagar sem enn eru staðfastir í trúnni.

Hann minnir ekki lítið á gömlu kommúnistana sem „biluðu ekki í Ungó“.

Kannski ekki skrýtið að hugurinn sé á Volgubökkum. Davíð Oddsson var einmitt nokkurs konar Boris Jelstín Íslands – undir hans forystu voru þjóðareignir gefnar mönnum sem fyrir vikið urðu ýmist fáránlega ríkir eða þóttust vera fáránlega ríkir.

Enginn sá muninn á því tvennu.


* * *


Hannes Hólmsteinn grípur gjarnan á lofti það sem hrýtur Davíð úr penna eða munni enda kemur fram í nýlegri grein Hannesar að hann lítur á það sem nokkurs konar karakterbrest að vera ósammála Davíð.

Nú síðast hendir Hannes á lofti ádeilugrein Davíðs í Nýja-Mogga um það að nokkrir ráðherrar stóðu á BSRB-þingi og sungu af innlifun og krafti sjálfan Nallann á meðan forseti Íslands stóð hjá svolítið ráðleysislegur að sjá.

Þeir félagar Hannes og Davíð beina sjónum – jú hvert? – á Volgubakka.

Þeir telja þennan söng sambærilegan við það að gamlir nasistar reki handlegg á loft og kyrji sína söngva og minna á að þessi söngur hafi verið þjóðsöngur Sovétríkjanna um hríð.

Svo maður vitni nú líka í Daðason:„Hvílík söguleg óheilindi!“

* * *


Internationalinn er frá 1870, eftir Frakkann Eugene Pottier en lagið er eftir Pierre Degeyter. Íslenski textinn sem oftast er fluttur er eftir Sveinbjörn Sigurjónsson kennara og þýðanda og höfund ýmissa kennslubóka, til að mynda um bragfræði.

Frá fyrstu tíð hefur þetta verið alþjóðasöngur Jafnaðarmanna og þótt kommúnistar í Sovétríkjunum hafi reynt að gera þennan söng að sínum – rétt eins og allar góðar hugsjónir um jöfnuð og frið og samvinnu – þá er það fráleitt að tengja hann því alræðisríki, enda lögðu kommúnistar þar þennan söng af sem þjóðsöng og tóku upp rússneskan þjóðrembubrag. Nalllinn lifði Sovétríkin rétt eins og allar hugsjónir um jafnrétti manna hafa gert.

Þennan söng hafa misrauðir kratar sungið á sínum samkomum frá því að þeirri hreyfingu tók að vaxa fiskur um hrygg fyrir daga Sovétríkjanna – og eftir þá. Þetta er jafnt söngur Jóns Baldvinssonar, Ólafs Friðrikssonar og Jóhönnu Egilsdóttur sem Gylfa Þ. Gíslasonar, Jóns Baldvins og Jóhönnu Sigurðardóttur. Þetta er alþjóðasöngur jafnaðarmanna og sá krataforingi naumast til í veröldinni (nema ef væru ódámarnir Blair og Brown) sem ekki syngur þennan söng með félögum sínum á samkomum jafnaðarmanna og verklýðssamtaka.

Þetta er söngur allra þeirra sem vilja að við berjumst fyrir því að byggja réttlátt samfélag. Þetta er herhvöt gegn kúgun, fjötrum, skorti og þjáningu. Þetta er ákall um frelsi, jafnrétti og bræðralag – samhug, einingu, dáðríki, djörfung. Öll erindin þrjú eru jafn aktúel nákvæmlega núna og þau voru á 19. öldinni.

Ég hvet alla lesendur til að standa upp á stól með hnefann á lofti og kyrja annað erindið:

Á hæðum vér ei finnum frelsi,
hjá furstum eða goðaþjóð;
nei, sameinaðir sundrum helsi
og sigrum, því ei skortir móð.
Alls hins stolna aftur vér krefjumst,
ánauð þolir hugur vor trautt,
og sjálfir brátt vér handa hefjumst
og hömrum meðan járn er rautt.

Og eftir viðlagið það þriðja:

Vér erum lagabrögðum beittir
og byrðar vorar þyngdar meir,
en auðmenn ganga gulli skreyttir
og góssi saman raka þeir.
Nú er tími til dirfsku og dáða.
Vér dugum, – þiggjum ekki af náð.
Látum bræður því réttlætið ráða,
svo ríkislög vor verði skráð.

Vertu sæll Moggi… – Úr Andrahaus

20. október 2009 · Fært í Úr Andrahaus ·  

„Í skarðslöndum fyrir vestan er eya ein, sem Hólaey heitir. Norður úr henni geingur höfði einn, hálfklipinn frá eynni, og heitir hann Andrahaus. Hausinn er nokkuð víðlendur ofan og grasi vaxinn mjög, og það því fremur sem á honum hefur verið sú trú, að ekki mætti slá hann.“Þjóðsögur Jóns Árnasonar I, bls. 481

Eftir Guðmund Andra Thorsson


„Byrjar hann,“ hugsar maður þegar maður sér forsíðu Moggans núorðið þar sem áhyggjusamleg fyrirsögn um skuldabyrði vegna Icesave kallast á við byrstan leiðarann inni í blaðinu. Þótt fréttin sé skrifuð af blaðamanni og eflaust unnin á faglegan hátt trúir maður henni ekkert. Maður hugsar: „Byrjar hann.“

Maður lítur á fréttina sem hvert annað innlegg í styrjöld Davíðs Oddssonar við heiminn.

Blað sem fyrir bara nokkrum mánuðum var fjölraddað talar nú æ færri röddum til okkar. Loks verður hún bara ein.

Blað sem endurspeglaði samfélagið í mótsetningum sínum, tilbrigðum og margháttuðum skoðunum verður málgagn eins manns; Reykjavíkurbréf, leiðarar, Staksteinar – og forsíðufréttir nú orðið – allt er þetta helgað skoðunum og hagsmunum og hleypidómum, þráhyggjum og umfram allt málsvörn Davíðs Oddssonar: það er skrifað um Seðlabankann sem allt gerði rétt og það er skrifað um Icesave, það er skrifað um forsetann og svo aftur um Seðlabankann og enn um Seðlabankann og loks um Seðlabankann. Sem allt gerði rétt.

Meira að segja vísnahornið hans Péturs Blöndals var um daginn helgað bragsnilld Davíðs.


* * *


Ég varð læs á Morgunblaðið – og Þjóðviljann. Síðarnefnda blaðið varð stærri partur af lífi mínu þegar fram liðu stundir. Ég vann þar um hríð, lærði þar prófarkalestur og hóf þar pistlaskrif, fór á blaðamannafundi og lifði í stöðugum ótta við að lenda í því að skúbba.

Mér fannst Þjóðviljinn vera mitt blað og hélt því að ég vissi hvernig það ætti að vera; mér varð það á að fagna því þegar Þjóðviljinn dó drottni sínum vegna þess að blaðið var ekki nákvæmlega eins og mér fannst að það ætti að vera. Ég hélt að áskrift minni á blaðinu og ást minni á því fylgdi ritstjórnarvald yfir því. Mér fannst ég hafa verið í samfélagi sem hefði á einhvern hátt svikið mig án þess að ég gæti gert fyllilega grein fyrir þeim svikum. Ég hef iðrast þess æ síðan að fagna dauða Þjóðviljans, þó ekki væri nema fyrir þá sök eina að þá misbauð ég Árna Bergmann, þessum víðsýna anda vinstri hreyfingarinnar og frumkvöðli í skáldsagnagerð sem kenndi okkur svo mörgum svo margt um frjálsa hugsun…

Síðan hef ég tregað Þjóðviljann. Og lesið Moggann.


* * *


Ég varð læs á Morgunblaðið og meðal þess fyrsta sem ég gerði þegar ég fór að búa sjálfur var að kaupa áskrift að blaðinu – þá fannst mér ég kominn með mitt eigið heimili. Mogginn hefur haft þessa stöðu í lífi okkar; verið eins og sokkarnir í skúffunni, útvarpið, ofnarnir og klósettið, myndirnar á veggjunum, dótið í hillunum, bækurnar, stólarnir, vaskurinn, kaffikannan…

Svefndrukkinn hef ég reikað fram í forstofuna og séð þar Moggann í lúgunni eins og staðfestingu á samhengi tilverunnar og nýrri dögun. Ég hef sett yfir ketilinn og hvomað í mig kornfleiksi yfir þessu blaði. Ég hef setið með það á klósettinu. Ég hef legið með það dormandi í sófanum meðan rigningin kliðar úti.

Ég hef meira að segja skrifað í það þegar mikið hefur legið við – nokkrar minningagreinar, sem eru mikilvægustu greinar sem við Íslendingar skrifum. Það hvarflaði aldrei að mér að áskriftinni fylgdi ritstjórnarvald yfir Mogganum; ég gerði ekki þá kröfu til blaðsins að það væri mér endilega að skapi, ég vissi ekki að það væri innan míns áhrifasviðs, frekar en veðrið. Ekki gat ég farið að hlutast til um Ferdinand. Ég vissi ekki einu sinni fyrr en Halldór Baldursson fór að teikna í blaðið að skopteikningar þar gætu verið fyndnar.

Slík var lítilþægni manns gagnvart blaðinu.

En ég á minningar tengdar þessu blaði sem teygja sig yfir alla ævina – það eru minningar um hvunndag – minningar um ömmur mínar og afa, sveitina, foreldrahús, ýmsar vistarverur tilveru minnar. Með öðrum orðum: blaðið hefur verið hluti af nánasta umhverfi mínu öll þessi ár og ég veit að þegar ég reika svefndrukkinn fram í forstofuna þessa myrku vetrarmorgna sem bíða mín og enginn Moggi verður í lúgunni þá mun mér finnast það tómlegt og mér á eftir að líða eins og eitthvað hafi verið tekið frá mér.

Þegar Ólafi Stephensen ritstjóra var sagt upp og í kjölfarið blaðamönnunum sem voru sálin í Mogganum – Birni Vigni og Freysteini, Árna Jörgensen og Fríðu Björk – en ráðnir þess í stað þeir Davíð Oddsson og Haraldur Johannessen – þá fannst mér sem mér hefði verið sagt upp sem áskrifanda.

Auðvitað mega eigendur blaðsins ráða þá sem þeir kjósa að blaðinu – skárra væri það nú – þótt peningarnir komi frá því að vera áskrifendur að óveiddum fiski í sjónum, fyrir utan alla skuldaniðurfellinguna – og ef þeir vilja fækka lesendum og einskorða lesendahópinn við áhangendur Davíðs er það vissulega þeirra mál. En ég er bara ekki í þeim hópi. Og ég get ekki verið að borga fyrir slíkt blað. Nóg er nú samt.

Því miður.

Ég mun sakna blaðsins.

* * *


Ég veit það ekki. Einhvern veginn er það svo að mér finnst ekki hægt að Davíð Oddsson eigi – eftir allt sem á undan er gengið – að geta sest í eina af fáum raunverulegum virðingarstöðum sem eftir eru í samfélaginu eins og ekkert hafi í skorist. Því það hefur svo mikið í skorist. Hann var vissulega eins og Kassandra í Seðlabankanum æpandi um misferli og komandi hrun og enginn trúði honum, af því hann var Davíð Oddsson. Hefði Hversemerannar Einhversson verið Seðlabankastjóri á þeim tíma hefði varnaðarorðum hans verið trúað og brugðist við. Svona verður það líka á Mogganum. Við hugsun: Byrjar hann…

Hann hefur brennt svo margar brýr að baki sér, hann hefur sagt svo margt, honum hefur orðið svo margt á. Hann sundrar en sættir ekki. Hann á sína áköfu áhangendur vissulega en hann nýtur ekki almennrar virðingar í samfélaginu. Hann er ekki trúverðugur. Við hættum að trúa blaðinu; nema það fólk sem á hann trúir.

Það þarf heldur ekki að hafa mörg orð um það að hrunið er bein afleiðing valdatíðar Davíðs Oddssonar og þeirrar hugmyndafræði sem hann innleiddi ásamt vildarmönnum sínum; afnám reglugerða, afnám Þjóðhagsstofnunar, taumlaus einkavæðing, laissez-faire-stefna samfara blindri trú á einhverja ósýnilega hönd markaðarins, sem Stiglitz sagði réttilega um að væri ósýnileg af þeirri einföldu ástæðu að hún væri ekki til…

Þegar þú býrð til óða-kapítalisma færðu óða kapítalista.

Ég vil ekki Davíð Oddsson, Ólaf Ragnar Grímsson, Jón Ásgeir Jóhannesson, Jóhannes Jónsson, Björgólf Thor. Ég vil ekki Sigurð Einarsson, Baldur Guðlaugsson, Existabræður, Bakkabræður, Kögunarfeðga, N1-frændur. Og hvað þeir heita allir, bankaskúmarnir og viðskiptaminkarnir. Ég vil þá ekki. Þeir eru frá því í gær; þeir sköpuðu okkur gærdaginn og eru staðráðnir í að láta morgundaginn verða á forsendum gærdagsins. Enn sjá þeir ekki sína miklu sök, sína stóru skuld, vita ekki til þess að þeir hafi gert neitt rangt. Þeir mega ekki halda áfram eins og ekkert hafi í skorist, vegna þess að það hefur allt í skorist – allt hrundi, allt fór. Ég vil ekki sjá að þeir komi nálægt því að skapa það þjóðfélag sem bíður barnanna minna og þeirra barna. Þeir standa fyrir hugmyndafræði sem má aldrei oftar trúa, aðferðir sem má aldrei oftar beita.

Allra síst vil ég hafa þá í mínu nánasta umhverfi að slást eins og óða fressketti. Ég vil ekki vakna á morgnana og reika svefndrukkinn fram í forstofu til þess að hefja daginn á því að fá þessi áflog framan í mig á síðum blaðsins sem einu sinni var Mogginn minn.

Nýtt fólk – heiðarlegt og grandvart fólk, skynsamt og óbrjálað af græðginni og geggjuninni, vélabrögðunum, klækjunum og átakagleðinni – verður að fá að byggja hér nýtt samfélag án þess að þeir séu að trufla okkur sýknt og heilagt, þessir fresskettir gærdagsins.


* * *


Ég mun sakna Moggans. Ég mun sakna hins fjölfróða Árna Matt og hins geðríka Arnars Eggerts, Beggu Jóns sem er vitur og væn, teikninga Halldórs Baldurssonar, gagnrýni Rikka Páls og Venna Linnet og Rögnu, Einars Fals og hinna ljósmyndaranna, viðtala Péturs Blöndal – aðsendu greinanna og minningagreinanna þar sem Íslendingar sýna sínar bestu hliðar; jafnvel Ferdinands þó hann hafi aldrei verið sérlega sniðugur. Allra góðu blaðamannanna sem búið er að reka. Blaðsins sem hefði getað orðið.

Á sínum betri stundum var Mogginn eins og fagurlega útskorið ræðupúlt og allir fóru að vanda mál sitt og æði þegar þeir komu þangað til að taka til máls. Hann var betristofa íslenskrar umræðu. Á verri stundum sínum var hann að vísu stundum snaróður oflátungur. En slíkum stundum fækkaði.

Þeir Matthías og Styrmir – og þeirra sveit – byggðu upp gott blað á mörgum árum sem  náði trúnaði manna sem komu úr hinum enda þjóðfélagsviðhorfanna. Þetta var blað sem ætlað var okkur öllum. Þeir voru óþreytandi að byggja brýr.

Það tekur enga stund að brenna brýr; trúnaður eyðist á örskotsstundu. Þjóðarblað skreppur saman í safnaðartíðindi. Vertu sæll Moggi, þakka þér samfylgdina.
Guðmundur Andri Thorsson

« Fyrri síða